132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:05]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. formaður Samfylkingarinnar vísaði í skilagrein stefnuhóps vegna framtíðarstefnu Samfylkingarinnar sem var til umræðu og var, að mér skilst, lögð fyrir á landsfundi Samfylkingarinnar vorið 2005. Ég minnist þess nú ekki að Samfylkingin hafi komist að niðurstöðu í þessum efnum eða að þessi texti hafi verið afgreiddur þar. Eftir því sem mér skildist á fréttum náðist ekki einu sinni samstaða um umræddan texta þannig að afgreiðslu þessa efnis var frestað.

Ég held að í þessum texta hafi einnig verið sagt eitthvað um það að sumir vildu helst slíta öllu hernaðarsamstarfi við Bandaríkin en aðrir vildu viðhalda því eins og kostur væri. Við teljum ráðlegt að viðurkenna þennan ágreining hiklaust og ég velti fyrir mér hvort þetta sé sterkt eða skýrt innlegg í þá umræðu sem hér á sér stað og hefur átt sér stað um öryggis- og varnarmál.

Enginn hefur í sjálfu sér velkst í vafa um hvað íslensk stjórnvöld hafa viljað gera í þessum efnum. Það hefur enginn getað ásakað stjórnvöld, ríkisstjórnina eða ríkisstjórnarflokkana, um að vafi léki á um það hver markmið þeirra væru. Það sama verður hins vegar ekki sagt um Samfylkinguna. Það hefur verið fullkomlega óljóst hér á síðustu árum frá stofnun Samfylkingarinnar hvaða stefnu Samfylkingin vildi hafa uppi í þessum málum, hvaða áherslu Samfylkingin vildi hafa. Niðurstaðan hefur alltaf verið sú hjá Samfylkingunni að það ætti að skipa einhverjar nefndir, það ætti að ræða málin opinskátt og hiklaust og allt er það gott og blessað. Á hinn bóginn hefur algjörlega skort á að Samfylkingin hafi lagt fram einhverja skýra stefnu um annað en að skipa nefndir.