132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:20]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það getur vel verið að hv. þm. Magnús Stefánsson hafi röntgenaugu og geti gegnumlýst hæstv. utanríkisráðherra. Ég dreg það ekkert í efa að það sé einlæg sannfæring hv. þingmanns að hæstv. utanríkisráðherra hafi mikinn vilja til að hafa náið og gott samráð við utanríkismálanefnd. Staðreyndin er bara sú að hann hefur ekki gert það. Hv. varaformaður utanríkismálanefndar á auðvitað að standa vörð um nefndina og hjálpa okkur hinum í nefndinni sem viljum fá hann til samráðs og samtala um þetta.

Ég vek sérstaka eftirtekt á að það eru ákveðin atriði í þessum viðræðum sem hafa lekið út úr utanríkisráðuneytinu, t.d. sem varða ratsjárstöðvar sem bersýnilega eru í umræðunni á milli þessara tveggja samningsaðila. En hæstv. utanríkisráðherra kemur ekki og ræðir það mál t.d. við utanríkismálanefnd. Nei, hann niðurlægir þingið með því að láta okkur lesa um þetta í fjölmiðlum á formi einhverra slúðursagna sem að vísu rata á forsíður dagblaða. Þetta er bersýnilega leki sem kemur einhvers staðar annars staðar frá en þaðan. Hvers vegna getum við sem erum í nefndinni ekki fengið upplýsingar um þetta? Það eru þessir hlutir sem gera það að verkum að ég er mjög óhress með þann óvilja sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sýnt til samráðs þó að hv. varaformaður utanríkismálanefndar sé annarrar skoðunar.

Að öðru leyti vekur það eftirtekt mína að hv. þm. Magnús Stefánsson getur fallist á að búnaðurinn, brautirnar verði í hlutafélagsformi í eigu ríkisins en hann er bersýnilega ósammála hæstv. utanríkisráðherra um að hleypa eigi öðrum aðilum inn í hlutafélagið, þ.e. hann vill að brautirnar verði í eigu ríkisins í formi hlutafélags. Hæstv. utanríkisráðherra talar um að hleypa innlendum eða erlendum aðilum þar inn. Þarna er greinilega ágreiningur uppi milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þessu máli.