132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:25]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu um slúðursagnir í blöðum, sem ég ætla ekki að leggja dóm á hvort sé rétt varðandi ratsjárstöðvarnar. Ég geri ráð fyrir að það mál komi til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þegar þau mál skýrast. Hins vegar er aftur spurning um hvenær það er tímabært og hvenær mál eru orðin það þroskuð að hægt sé að taka þau til umfjöllunar.

Hvað varðar varnarsamstarfið við Bandaríkin og það sem hv. þingmaður vísaði í varðandi ummæli utanríkisráðherra þá er ég sammála því að við eigum að sjálfsögðu að ljúka viðræðum við Bandaríkjamenn og ná fram niðurstöðu í þeim viðræðum áður en við þreifum fyrir okkur annars staðar.

Hvað varðar NATO þá erum við auðvitað aðilar að Atlantshafsbandalaginu og ég og hv. þingmaður erum í samstarfi á þeim vettvangi ásamt öðrum. Að frátöldum Bandaríkjamönnum stendur okkur næst að NATO komi kannski meira að varnar- og öryggismálum okkar en verið hefur.

Ég ítreka að ég tel að við eigum að fá niðurstöður í þessar viðræður við Bandaríkjamenn og eins og ég sagði í ræðu minni hefði ég auðvitað kosið að þeir sæju um varnarmál okkar áfram eins og verið hefur. Sú staða er því miður ekki uppi en viðræður standa yfir og ég bíð eftir því og vonast til að niðurstaðan liggi fyrir sem fyrst.