132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:29]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi skýrslur utanríkisráðherra til Alþingis. Hv. þingmaður spurði hvort ég hefði einhverjar skýringar á því af hverju þær hefðu ekki borist. Ég er því miður ekki sitjandi í þeim ráðherrastól þannig að ég get ekki svarað því. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður beini því þá til viðkomandi ráðherra. Ég get ekki útskýrt það mál.

Hvort ekki væri rétt fyrir okkur að fara með þetta mál formlega á borð NATO í stað þess að standa í viðræðum við Bandaríkin um málið. Ég tel það ekki vera. Við eigum í viðræðum við Bandaríkjamenn og þurfum að fá niðurstöður í þær viðræður sem fyrst. Hvað út úr þeim kemur get ég ekki svarað á þessari stundu en ég tel ekki ástæðu til að fara með málið beint á borð NATO á þessu stigi málsins. Við eigum í viðræðum við Bandaríkjamenn á grundvelli tvíhliða varnarsamnings og við eigum auðvitað að ljúka þeim viðræðum sem fyrst.