132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:32]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert frekar að fjalla um skýrsluna. Ég held að það sé rétt að óska svara frá utanríkisráðuneytinu hvað það varðar.

Hvort þessi staða kallar á endurskoðun á varnarsamningnum? Ég held að það sé rétt að bíða og sjá hvað kemur út úr þessum tvíhliða viðræðum áður en menn fara að velta því mikið fyrir sér. Sú staða getur hugsanlega komið upp að við teljum þörf á að endurskoða þennan varnarsamning. Ég ætla ekkert að fullyrða neitt á þessu stigi.

NATO hefur verið gerð grein fyrir þessari stöðu eins og menn vita. Hæstv. forsætisráðherra gerði það á sínum tíma. Ég nefndi það í minni ræðu að við þingmenn sem erum fulltrúar Alþingis hjá NATO-þinginu höfum gert það og munum fylgja því eftir þannig að fulltrúar NATO-ríkjanna séu alveg klárir á því hver staðan er. En ég tel rétt að við bíðum eftir niðurstöðum tvíhliða samningaviðræðnanna og ég vonast til að þær liggi fyrir sem allra fyrst, ég tel það mjög mikilvægt. Ég tel það líka mjög mikilvægt að Bandaríkjamenn geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.