132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:00]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá ræðu sem hann flutti okkur hér. Ég verð þó að segja eins og er að ég átti von á því að meira kjöt væri á beininu því að í raun er skýrslan að mestu leyti yfirlit yfir ástand mála á völdum svæðum í heiminum og upptalning á atriðum og ástandi sem nánast öllum er kunnugt. Það var lítið nýtt í þessari skýrslu, hún var nánast upptalning á staðreyndum sem fyrir liggja.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem sagði oft úr ræðustóli þegar skýrslur eða annað því um líkt kom frá ráðherrunum að þetta væri heldur rýrt í roðinu. Í fjarveru hv. þingmanns verð ég að taka mér þau orð í munn. Þessi skýrsla er frekar rýr í roðinu ef við horfum á ástandið eins og það er á sviði utanríkismála á Íslandi í dag.

Ég saknaði þess í skýrslunni að þar væri einhver alvöruumfjöllun um stefnu ríkisstjórnarinnar, um framtíðarsýn hennar og hvernig hún ætlaði sér að bregðast við nýjustu atburðum á utanríkismálasviðinu, á sviði sem snertir Íslendinga beint og er ég þá að tala um brottför bandaríska varnarliðsins og hvernig að því var staðið að tilkynna okkur um hana. Ég mun því eins og margir fleiri að mestu halda mig við það málefni sem drepið er á í skýrslunni og tekur ansi góðan part af henni en það er varnarsamningurinn, samskiptin við Bandaríkin og sú staða sem nú er uppi.

Ég hefði að óreyndu átt von á því að ráðherra mundi nota tækifærið við skýrslugjöf og skýra þinginu frá einhverri afstöðu sem íslenska ríkisstjórnin hefði tekið sjálf einhliða gagnvart þessari einhliða tilkynningu Bandaríkjamanna um brottför varnarliðsins en það kveður því miður við sama tón og við höfum heyrt í fjölmiðlum, að við ætlum að bíða ákvarðana Bandaríkjamanna, að við ætlum að bíða eftir því, eins og segir í skýrslunni, að þeir móti varnarstefnu fyrir Ísland. Við ætlum að bíða eftir því að þeir skýri okkur frá því hverjar þeirra óskir eru varðandi áframhald varnarsamningsins.

Þegar maður fer yfir viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar við atburðunum virðist orðið bíða vera lykilorð í málinu en það vantar orð eins og ákvarðanataka, sjálfstæði og að taka ábyrgð á eigin málum inn í það sem við höfum séð. Það er ekkert annað en hreinn og klár dónaskapur við íslensk stjórnvöld að meðan verið er í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn um framtíð varnarsamningsins og hvernig á að uppfylla hann sé einhliða tilkynnt um brottför flugvélanna og varnarliðsins í heild sinni. Enn og aftur virðast viðbrögðin vera þau að hæstv. utanríkisráðherra ætlar að mæna til Bandaríkjamanna í þeirri von að þeir færi honum eitthvað annað en hann sjálfur vildi en gerir kannski að þeirra mati sama gagn.

Í skýrslunni er sagt frá því að fyrsti fundur samninganefnda Íslands og Bandaríkjanna hafi verið haldinn 31. mars. Við erum búin að hlusta á það oft á þingi af vörum hæstv. utanríkisráðherra að samningaviðræður séu í gangi og slíkt þó að það hafi nú breyst eftir því sem passað hefur hverju sinni hvað þær viðræður eru kallaðar en hér segir að þann 31. mars hafi fyrsti fundur samninganefnda Íslands og Bandaríkjanna verið haldinn. Bandaríkjaher vinnur að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland. Það er sagt fullum fetum í skýrslunni að við séum að bíða eftir því að Bandaríkjaher vinni að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland. Hingað komu sem sagt á fund, sem kallaðist samningafundur, 26 samningamenn frá Bandaríkjunum eftir að einhliða hafði verið tilkynnt um brottför varnarliðsins og sögðu okkur að þeir væru að vinna að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland.

Hefði ekki verið eðlilegt, og í samræmi við varnarsamninginn, að þeir hefðu verið búnir að gera sér grein fyrir hvernig þeir ætluðu að rækja skyldur sínar áður en þeir tilkynntu okkur einhliða að þeir ætluðu í burtu með sinn viðbúnað héðan. Nú ætla þeir að vinna að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland og eftir að hafa átt í þessum viðræðum við Bandaríkjamenn til margra ára veltir maður því fyrir sér hvað það taki langan tíma. Það má segja að tíminn sé hugtak sem skiptir miklu máli í þessu efni, ekki síst fyrir Suðurnesin og þá sem starfað hafa hjá Bandaríkjaher á flugvellinum. Í skýrslunni kemur fram að Bandaríkjamenn gera ráð fyrir frekari kynningu og samráði um áætlunina, þessa nýju varnaráætlun, eftir nokkrar vikur. Það væri rétt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað nokkrar vikur þýða í þessu sambandi. Nokkrar vikur geta í mínum huga verið allt frá því að vera 2–3 og upp í það að vera 6–8. Getur það verið að við ætlum að bíða í 2–3 mánuði jafnvel eftir því að Bandaríkjaher nái að vinna að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland og tilkynna okkur hver hún er? Mér þætti vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra gæti svarað þeirri spurningu.

Við verðum náttúrlega að horfast í augu við það að samningataktíkin hefur algerlega brugðist í þessum samningum við Bandaríkjamenn. Hinn sífelldi söngur íslenskra ráðamanna um að hér þyrftu að vera 4 þotur og ekkert annað en 4 þotur og ekki væri hægt að semja um neitt annað, þetta væri lágmarksviðbúnaður og hér yrðu 4 eða 15 orrustuþotur, hefur orðið til þess að Bandaríkjamenn hafa gefist upp á viðræðum við samninganefndina og hæstv. utanríkisráðherra og ákveðið að héðan í frá muni þeir beita einhliða ákvörðunum í samskiptum við hæstv. ríkisstjórn sem hefur neitað að viðurkenna breytta heimsmynd og breytt öryggisumhverfi. Mér finnst orð hæstv. utanríkisráðherra í skýrslunni benda til þess að við séum að bíða eftir því að þeir segi okkur einhliða hver hin nýja varnaráætlun fyrir Ísland verður og að við bíðum eftir því að fá að vita af henni.

Það kemur fram í skýrslunni að heimsmynd og öryggisumhverfi hafi breyst afskaplega mikið eftir 11. september 2001 þegar hryðjuverkamenn réðust á New York og Washington og því held ég að allir sem fylgjast með varnar- og öryggismálum hafi gert sér grein fyrir. Þrátt fyrir að árið 2001 hafi orðið gerbreyting í umhverfinu sem við þekkjum, heimsmyndinni og öryggisumhverfinu, héldu íslenskir ráðamenn samt sem áður áfram að tala um að hér væri ekki um neitt að semja varðandi sýnilegar varnir annað en 4 eða 15 orrustuþotur. Þeir hafa hangið á þeim eins og hundar á roði og niðurstaðan verður þessi.

Niðurstaðan er skýr. Einhliða brottför sem fyrst. Við vitum ekki hér á þingi hvenær herinn fer, hvenær þoturnar fara. Það er engin aðlögun, það er engin fyrirliggjandi framtíðarsýn, það er ekkert plan B. Þetta er í raun snautleg niðurstaða eftir allan þann tíma sem búið er að eyða í svokallaðar samningaviðræður og hlýtur að vera erfið niðurstaða fyrir formenn Sjálfstæðisflokksins fyrr og nú. Þeir hafa reynt að telja þjóðinni trú um að þeir væru í svo góðu vinfengi við ráðamenn vestra að það þyrfti ekkert að óttast um framtíðarvarnir landsins. Við vitum að í langan tíma hafa formenn Sjálfstæðisflokksins tekið þetta mál í faðm sér og haldið öðrum frá því og bera því einir ábyrgð á því klúðri sem nú blasir við.

Þegar Bandaríkjamenn tilkynntu um brottför töluðu ráðherrarnir í ríkisstjórninni um nauðsyn þess að bregðast fljótt við þeim vanda sem brottför hersins skapaði á Suðurnesjum. Loksins virtust þeir tilbúnir til að ræða um starfsmannamál hersins, hvernig fara ætti með land innan varnarsvæða og nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld hefðu skoðun og áhrif á hvernig farið yrði með mannvirki á Vellinum. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa í þrjú ár reynt að ná fundi utanríkis- og forsætisráðherra til að ræða málefni Keflavíkurflugvallar en ekki haft erindi sem erfiði.

Ég var ánægður með þá staðreynd að ráðherrar, sem yfirleitt hafa skammað mig blóðugum skömmum þegar ég hef komið í þennan ræðustól til að tala um starfsmannamál og svæðisbundin málefni sem tengjast varnarliðinu og varnarsamningnum, sýndu loks á því skilning að varnarsamningurinn hefði áhrif á atvinnulíf og efnahag á Suðurnesjum þó að samningurinn sjálfur snerist að sjálfsögðu að mestu leyti um öryggi og varnir landsins. Tillögum þeirra um að setja á fót samstarfsnefnd heimamanna og ríkisins vegna ástandsins var fagnað af heimamönnum sem snarlega skipuðu sína fulltrúa í nefndina en síðast þegar ég vissi hafði ríkið ekki skipað sína fulltrúa og eftir því er verið að bíða á Suðurnesjum.

Versta staða sem getur komið upp er sú að það sé verið að bíða og bíða og bíða. Það er búið að bíða nógu lengi eftir einhverri niðurstöðu. Nú höfum við ákveðna niðurstöðu í höndunum og það hlýtur að vera skylda hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar að taka frumkvæði í málinu, taka á málinu eins og sjálfstæð ríkisstjórn og setja fram óskir sínar og kröfur í málinu en ekki bíða eftir því að þeim verði rétt eitthvað sem Bandaríkjamönnum dettur í hug að láta okkur hafa.

Utanríkisráðherra mótmælir því í skýrslu sinni að íslensk stjórnvöld hafi vanrækt það að skoða öryggismál þjóðarinnar í ljósi breyttra aðstæðna og gera viðeigandi skýrslur og tillögur þar um. Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að þessar fullyrðingar standist ekki og að það sé stjórnarandstaðan sem sé að tala um þetta.

Til marks um það hvað ríkisstjórnin hefur staðið sig vel í málinu kemur fram í skýrslunni að á árinu 1993 kom út skýrsla sem unnin var á vegum stjórnvalda um öryggis- og varnarmálin, fyrir 13 árum. Það er annar parsus í skýrslunni sem segir að á árinu 1999 hafi starfshópur utanríkisráðuneytisins unnið greinargerð um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót, fyrir 7 árum. Hvað segir hæstv. utanríkisráðherra sjálfur í upphafi skýrslu sinnar? Hann segir, með leyfi forseta:

„Heimurinn tekur sífelldum breytingum, jafnvel á þeim stutta tíma sem líður milli þess sem utanríkisráðherra gerir grein fyrir þeim utanríkismálum sem efst eru á baugi hverju sinni hér á Alþingi.“

Það líður eitt ár á milli þessara skýrslna og hæstv. utanríkisráðherra segir sjálfur að heimurinn breytist mikið á einu ári og vitnar síðan í skýrslu sinni til þess að fyrir 13 árum og fyrir 7 árum hafi ríkisstjórnin látið vinna skýrslur um öryggis- og varnarmál þannig að hún standi sig nokkuð vel í því að leggja mat á stöðuna í öryggis- og varnarmálum.

Í skýrslunni segir hæstv. ráðherra einnig að allt hafi gerbreyst við hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Þá hafi heimsmyndin breyst og þá hafi öryggissamfélagið breyst. Það var árið 2001 og samt er verið að vísa í skýrslu sem ríkisstjórnin lét gera fyrir 13 árum og fyrir 7 árum, og standi sig þar af leiðandi nokkuð vel.

Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar varðandi hina miklu flutninga sem við munum sjá á hafinu í kringum Ísland á næstu árum. Það eru mikil plön uppi um olíu- og gasvinnslu úti fyrir norðurströnd Noregs og úti fyrir ströndum Rússlands. Það er alveg ljóst að þó ekki gangi eftir nema brot af þeim áætlunum sem þar er verið að tala um munu flutningar í risatankskipum, olíuskipum og skipum sem flytja fljótandi gas verða gífurlegir á hafinu í kringum Ísland. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þetta hafi verið rætt við Norðmenn, sem munu hagnast mikið á þessari vinnslu og munu þurfa að halda þessari þjóðleið héðan og til Bandaríkjanna eins öruggri og hægt er, um það hvort taka ætti upp einhvers konar samstarf um eftirlit, öryggi og björgun á þessu hafsvæði. Norðmenn munu þurfa að fara þarna í gegn með mikið af stórum tankskipum fullum af olíu og fljótandi gasi.

Það sama á við um Rússa að ekki sé nú talað um Bandaríkjamenn því þeir munu verða stærstu kaupendur að þeirri orku sem kemur þarna norðan frá. Telja þeir sig ekki þurfa að leggja neitt af mörkum til þess að hafsvæðið verði öruggt og eftirlit verði á þessu. Þegar svona rúta er komin í gang sem þarna um ræðir hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þar verði ekki skotmark hryðjuverkamanna og nauðsynlegt að bregðast við því.

Samfylkingin hefur sagt að við eigum að byggja á grundvelli varnarsamningsins. Það er rétt. Við höfum bent á 7. gr. samningsins sem setur tímamörk á Bandaríkjamenn. Ef farið er eftir 7. gr. hafa menn sex mánuði til að ganga í þá vinnu að endurskoða samninginn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Kemur ekki til greina að setja tímapressu á Bandaríkjamenn núna? Ætlum við enn og aftur að láta þá tala við okkur í mörg ár og niðurstaðan verður engin?