132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:16]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Utanríkismálaumræðan í Alþingi er ævinlega spennandi umræða. Hér er farið vítt yfir sviðið og hæstv. utanríkisráðherra hefði að mínu mati að ósekju mátt fara víðar yfir sviðið en hann gerði en hann velur að dvelja við tvö meginefni, þ.e. Asíu, tengsl okkar þangað austur og sjónarmið okkar varðandi það sem er að gerast þar og svo auðvitað mál málanna hér: væntanlegt brotthvarf hersins frá Keflavíkurflugvelli. Í þeim efnum er að mörgu að hyggja og ég minni á þingsályktunartillögu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt á Alþingi varðandi það á hvern hátt við sjáum fyrir okkur veruleikann í því og hvernig við getum á skynsamlegan hátt tekist á við þá staðreynd að herinn er um það bil að fara. Ég verð að segja að sem baráttukona fyrir friði sýti ég það ekkert, ég græt það ekki þó að Bandaríkjaher sé að yfirgefa landið en ég gagnrýni hins vegar stjórnvöld fyrir að hafa með sofandahætti látið undir höfuð leggjast að undirbúa það sem nú þarf að gerast í þessum efnum. Þeir hafa haft nægan tíma þessir stjórnarherrar okkar til að undirbúa brottför hersins en hafa flotið sofandi að feigðarósi ef má orða það svo. Þeir hafa látið undir höfuð leggjast að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar hefðu verið og standa nú frammi fyrir því að þurfa að grípa til aðgerða sem kannski er ekki hægt að undirbúa jafn vel og hefði þurft að gera ef menn hefðu gripið til aðgerðanna fyrr.

Svo blöskrar mér satt að segja í máli hæstv. utanríkisráðherra hversu átakamiðuð hans ræða er og tek undir þau orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar að það mætti halda að rót ræðunnar sé komin beint frá Pentagon. Það er alveg með ólíkindum að hæstv. utanríkisráðherra skuli leyfa sér þá hluti sem hann leyfir sér hér sérstaklega þegar hann fer orðum um nýlátinn leiðtoga Palestínumanna, Yasser Arafat, þegar hann kallar hann þránd í götu friðar fyrir botni Miðjarðarhafs. Hæstv. utanríkisráðherra veit það auðvitað að Yasser Arafat lagði sig fram um að ná friði fyrir botni Miðjarðarhafs og fékk fyrir vinnu sína í þeim efnum friðarverðlaun Nóbels. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað telur hann að akademían sem veitti þau verðlaun hafi haft að leiðarljósi þegar sú ákvörðun var tekin? Það voru a.m.k. ekki sömu sjónarmið og hæstv. utanríkisráðherra lepur upp eftir ríkisstjórn Bandaríkjanna og þeim sem fara með völdin í Pentagon.

Það sem mig langar til að gera að aðalumfjöllunarefni ræðu minnar, frú forseti, eru áform okkar Íslendinga um að leggja nú lóð á vogarskálarnar í vinnu við að viðhalda friði í heiminum, þ.e. framboð okkar til öryggisráðsins. Við skulum ekki gleyma því eina einustu stund að Sameinuðu þjóðirnar og líka öryggisráðið voru settar á laggirnar og stofnuð til að viðhalda friði í heiminum, ekki til að efna til átaka eins og því miður hefur verið gert jafnvel í nafni Sameinuðu þjóðanna. Nú langar mig til að ráða hæstv. utanríkisráðherra heilt í þessum efnum því ég geri mér grein fyrir því að við stefnum hraðbyri í þessa átt sem hefur verið gagnrýnd og má auðvitað deila um hvort rétt sé að við fölumst eftir þessu sæti og förum í þetta framboð en gott og vel. Það er búið að taka þá ákvörðun og þeirri ákvörðun verður eflaust haldið en þá spyr ég sjálfa mig: Hvað ætlum við Íslendingar að gera í öryggisráðinu? Hvernig ætlum við að fara með okkar atkvæði þar? Hvernig ætlum við að sinna því ábyrgðarmikla starfi sem sett verður á okkar herðar í öryggisráðinu ef svo fer að við fáum þar sæti?

Ég óttast það mest af öllu og ég tel ræðu hæstv. utanríkisráðherra gefa það til kynna að hann og íslensk stjórnvöld — verði sama ríkisstjórn við völd þegar og ef þar að kemur að við tökum sæti í öryggisráðinu, að einungis verði lapin upp einhver utanríkisstefna Bandaríkjanna og við verðum einungis í öryggisráðinu til að veita stuðning, veifa og brosa við þeim ákvörðunum sem Bandaríkjastjórn leggur til að teknar verði og eins og við vitum eru þær ekki ákvarðanir friðar. Svo sannarlega hefur Bandaríkjastjórn og Bandaríkin í öryggisráðinu ekki verið boðberar friðar eða friðflytjendur.

Hins vegar er ein ályktun öryggisráðsins öðrum fremur í mínum huga til þess fallin að koma á friði og viðhalda honum. Það er ályktunin frá árinu 2000, ályktun nr. 13/25, sem mikið hefur verið um fjallað og haldnir margir fundir um og mikil fræðsla átt sér stað um. Þetta er tímamótaályktun í mínum huga, ályktun sem er sú fyrsta sem tekur á afleiðingum stríðsátaka í veröldinni fyrir konur, ályktun sem viðurkennir hlutverk kvenna í að fyrirbyggja og leysa átök, ályktun sem kallar á fulla þátttöku kvenna í öllu friðar- og öryggisstarfi í veröldinni. Síðan þessi ályktun 13/25 tók gildi hefur hún verið notuð óspart bæði af konum og körlum úti um allan heim til að safna stuðningi fyrir og þrýsta á um jafna þátttöku karla og kvenna í friðarferli. Grasrótarsamtök kvenna í ýmsum stríðshrjáðum löndum hafa notað ályktunina sem tæki til að þrýsta á um aukinn hlut þeirra í samfélags- og friðaruppbyggingu, ekki síst í kosningum og stjórnarskrárnefndum. Það er búið að þýða hana á um það bil 70 tungumál og það er verið að fræða fólk úti um allan heim um þau áhrif sem hún mögulega getur haft og nú langar mig til að segja hæstv. utanríkisráðherra frá því hvers vegna það er svo mikilvægt að leita til kvenna við uppbyggingu friðar og því að viðhalda friði í veröldinni.

Hér hef ég með mér í ræðustól, frú forseti, skýrslu sem heitir „Konur, stríð og friður“, skýrslu sem gefin var út árið 2002 og skrifuð er að frumkvæði UNIFEM sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Skýrsluna hafa skrifað þær Elisabeth Rehn og Ellen Johnson Sirleaf sem nú er orðin forseti í Afríkuríkinu Líberíu, fyrsta konan til að vera lýðræðislega kjörin í Afríkuríki. Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með því hvernig hún formúlerar sig sem sá leiðtogi sem hún er og hvernig hún eða ég alla vega tengi það við þá reynslu sem hún fékk af þeirri skoðun sem henni var falið að gera á afleiðingum stríðsátaka fyrir konur. Ég treysti því og veit að Ellen Johnson Sirleaf kemur til með að marka djúp spor í sögu örugglega allrar Afríku í þessum efnum. Hún er sannur friðflytjandi og boðberi friðar og hún veit hvað getur mögulega orðið til þess að friði í þessum ríkjum verði við haldið.

Í þessari skýrslu, herra forseti, eru sagðar sögur kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa þurft að takast á við hörmungar stríðsátaka á ýmsan hátt. Hér er t.d. sögð saga kvenna í Kolumbíu sem hafa tapað öllu, misst eiginmenn sína og syni, landið sitt og eigur í borgarastyrjöldinni og í átökum eiturlyfjabaróna. Hér er sögð saga kvenna í Kosovo í Bosníu, kvenna sem lýsa því hvernig þær voru numdar á brott af óvinahermönnum, hvernig þeim var komið fyrir í nauðgunarbúðum þar sem þeim var nauðgað og þær þvingaðar til að ganga með börn kúgara sinna og morðingja eiginmanna sinna. Hér er sögð saga kvenna í Rúanda sem var nauðgað í þeim tilgangi einum að smita þær af HIV-veirunni og svona get ég lengi áfram talið. Það er talað um konur í Austur-Tímor, hér er sagt frá konum í Kongó, Guatemala, Afganistan og víðar og allar hafa þær sömu hryllingssögunarnar að segja. Þær eru svipaðar. Þær greina frá því hvernig kjarni átaka í veröldinni hefur breyst, hvernig aðferðir stríðandi fylkinga hafa þróast yfir í að ryðjast inn á heimili óbreyttra borgara og inn í líkama kvennanna. Ofbeldi gegn konum er beinlínis notað í meðvituðum og ætluðum tilgangi. Það er notað til að niðurlægja og vanvirða konur og eiginmenn þeirra, syni þeirra og dætur og má segja að nú svo sé komið að konur og stúlkur séu orðnar stærsti hópur fórnarlamba stríðsátaka.

Svo gerist það, herra forseti, að sú reynsla sem þessar konur búa yfir býr til nýjan veruleika. Hún hefur á einhvern hátt í sér fólgin þau sannindi sem gefa okkur von um að til sé leið út úr þessum vopnuðu átökum milli þjóða og þjóðarbrota. Hún gefur okkur von um að konur sem öflugir friðarboðar geti haft veruleg áhrif í þessum efnum og ekki síst einmitt þær konur sem sjálfar hafa mátt þola hörmungar stríðsátaka á eigin skinni.

Sögurnar um það hvernig konur hafa nýtt þessa eigin reynslu sína í að byggja upp frið í sínum samfélögum og viðhalda honum eru mjög áhrifaríkar. Þær spanna allt frá sögum um hvernig konur í Ghana sem höfðu verið flóttamenn frá Líberíu hafa t.d. tekið að sér að læra byggingatækni til að geta byggt ný hús handa fjölskyldum sínum. Þessar sögur segja frá því hvernig konur í Afganistan hafa reynt að nýta sér aðferðir til að komast hjá ógnarstjórnum, ofbeldi og átökum í Afganistan með því teikna upp kort af borgum og bæjum og búið sér til neðanjarðarleiðir til að setja upp skóla fyrir stúlkur, skýli fyrir fólk sem þarf að leita sér læknishjálpar, hvernig þær hafa útbúið störf fyrir aðrar konur og hvernig þær á leynilegan hátt hafa komið upplýsingum um þessa þætti til skila til kynsystra sinna. Hörmungarnar sem konur hafa þurft að þola í stríðsátökum hafa kennt þeim að lifa af og þær hafa líka kennt þessar aðferðir við að búa til frið. Það er algerlega nauðsynlegt að karlarnir í heiminum, karlarnir sem ráða lögum og lofum í öryggisráðinu, sitja við borðið þar sem okkur er sagt að sé verið að semja um frið hleypi konunum að. Ef hæstv. utanríkisráðherra Geir Haarde getur farið með eina bón frá löggjafarsamkundunni, a.m.k. frá mér og ég er viss um okkur fleirum sem hér sitjum þá er það bón um að setja það á oddinn að konum í veröldinni verði gert kleift að setjast við þessi borð þar sem samið er um frið og honum við haldið. Að nýta þessa reynslu sem búið er að kortleggja og sýna okkur fram á að hefur í sér falinn þennan neista, þessa kunnáttu sem getur skipt sköpum fyrir áframhaldandi uppbyggingu friðar í heimunum. Ef það er eitthvað batterí í allri veröldinni sem á að viðhalda friði þá er það öryggisráðið og takist það ætlunarverk okkar Íslendinga að eignast þar sæti er lífsnauðsynlegt að við sýnum þá döngun og það sjálfstæði að við komum að því borði með nýjar hugmyndir. Og hugmyndir á borð við þær sem Elisabeth Rehn og Ellen Johnson Sirleaf greina frá í þessari skýrslu eru hugmyndir sem við höfum kannski tækifæri til að fara lengra með, hugmyndir sem við getum mögulega tryggt að skjóti rótum. Þar með værum við að gerast boðberar friðar á alþjóðavettvangi og það er mikilvægt að Íslendingar verði: herlaus þjóð í herlausu landi, boðberar friðar á alþjóðavettvangi. Það er mín ósk að við verðum.