132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:30]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um utanríkismál. Það er skýrt í mínum huga að við þurfum að leggja mjög mikið upp úr þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi. Við þurfum að gera okkur sýnileg á alþjóðavettvangi. Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra að við þurfum að gæta hagsmuna Íslands og öryggis eftir bestu getu í nýju umhverfi.

Í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan kom m.a. fram að Ísland ætti að standa utan hernaðarbandalaga og gæta hagsmuna sinna með öðrum hætti. Í hinu nýja umhverfi og við hinar nýju ógnir sem við okkur blasa er sennilega aldrei jafnmikilvægt og nú að fylkja liði með öðrum vinaþjóðum til að beina ógninni frá. Það er alkunna að þjóðir standa betur að vígi ef þær leggja saman krafta sína en hver í sínu horni.

Við sjáum einnig þá þróun sem er að verða innan Evrópusambandsins. Evrópusambandið hefur beint sjónum sínum að öryggis- og varnarmálum með sérstakri stefnumótun á því sviði. Það er einnig staðreynd að NATO hefur verið eftirsótt af ríkjum sem eru að feta brautina í átt til lýðræðis sem ákveðið takmark á leiðinni en ekkert ríki getur í raun þróast eðlilega ef öryggi þjóðarinnar er ekki tryggt.

Hæstv. forseti. Atburðirnir 11. september 2001 munu ekki líða neinum úr minni. Þá má segja að kaflaskipti hafi orðið í alþjóðamálum. Hryðjuverk voru orðin alþjóðleg og án landamæra. Baráttan gegn hryðjuverkum var skyndilega mjög áþreifanleg og hefur síðan þá tekið verulegan tíma og athygli alþjóðastofnana, stjórnmálamanna og fræðimanna. Þannig hefur Atlantshafsbandalagið t.d. ákveðið að gera baráttuna gegn hryðjuverkum að forgangsmáli innan bandalagsins. Bæði NATO og aðildarríki þess þurfa að gera ráð fyrir hugsanlegum árásum með sýkla-, efna- og geislavopnum og hafa tiltækar viðbragðsáætlanir. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins hefur þannig tekið stakkaskiptum. Í tengslum við það hefur ótti þjóða heims við að hryðjuverkamenn kæmust yfir gereyðingarvopn magnast. Enginn getur séð fyrir þær hrikalegu afleiðingar sem það gæti haft ef hryðjuverkamenn beittu slíkum vopnum. Það er ákaflega mikilvægt að tryggt sé að öll meðferð geislavirkra efna sé trygg og örugg og notuð í friðsamlegum tilgangi eins og við orkuframleiðslu.

Efni mega hvorki vera aðgengileg óviðkomandi aðilum né skaðleg fyrir umhverfið. Þróun mála undanfarin missiri sýnir svo ekki verður um villst að hryðjuverkamenn beita nú öðrum aðferðum en áður. Í stað sjálfsmorðsárása virðast þeir líklegri til að nota vopn sem unnt er að beita úr fjarlægð. Ekki síst þurfa þjóðir heims að vera á verði gagnvart því gríðarlega umhverfistjóni sem hryðjuverkamenn geta valdið. Enginn getur því í raun haldið því fram að hann sé öruggur og þurfi ekki á vörnum að halda. Varnarlaust ríki er líklegt til að draga að sér athygri slíka manna og kjörið tækifæri til að vekja athygli á tilteknum málstað. Við getum ekki sætt okkur við að vera slíkt ríki. Varnarlaus veikjum við líka þá öryggiskeðju sem NATO myndar. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Ísland vill að sjálfsögðu ekki njóta þess vafasama heiðurs að vera veikasti hlekkurinn í keðjunni. Í þessu ljósi verðum við að meta stöðu okkar innan NATO og mikilvægi varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna.

Aðild okkar að NATO og tvíhliða varnarsamningur okkar við Bandaríkin hafa verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkismálastefnu í meira en hálfa öld. Staða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna hefur verið stöðugt til umfjöllunar sl. ár. Í samræmi við áratugalangt og vinsamlegt samstarf Íslands og Bandaríkjanna er ákaflega mikilvægt að þjóðirnir leysi þessi mál hið allra fyrsta. Því er þó ekki að leyna að það olli okkur verulegum vonbrigðum hversu aðferðafræði bandarískra stjórnvalda var klaufaleg og lítt í samræmi við það sem við áttum von á.

Það þarf ekki að taka að fram að við höfum ekki eingöngu verið þiggjendur í samstarfi, því er fjarri. Við höfum lagt til nauðsynlega aðstöðu sem er einstök í Norður-Atlantshafi og pólitískan stuðning við okkar vinaþjóð. Það er einu sinni þannig að í svona samstarfi leggur hvor aðili eitthvað af mörkum. Við höfum lagt okkar til og svo má deila um það hvort annar aðili leggi enn meira inn í samstarfið.

Að sjálfsögðu erum við þakklát fyrir þá aðstoð sem varnarliðið hefur veitt okkur á ögurstundu. Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þyrlusveitar varnarliðsins sem hefur komið til aðstoðar oft við mjög erfiðar aðstæður. Afstaða okkar í málinu hefur alla tíð verið skýr. Hér þarf að vera lágmarksviðbúnaður. Ísland sem NATO-ríki getur ekki verið eitt án varna enda væri Ísland þannig veikur hlekkur í varnarkeðju Atlantshafsbandalagsins. Þótt kalda stríðinu sé lokið hafa orðið til nýjar ógnir eins og ég ræddi ítarlega áðan.

Í viðræðum íslenskra stjórnvalda hafa verið reifaðar hugmyndir um að Ísland tæki aukinn þátt í greiðslu kostnaðar við rekstur Keflavíkurflugvallar. Við höfum talið eðlilegt að skoða það enda hefur hlutverk Keflavíkurflugvallar breyst undanfarin ár og ekkert náttúrulögmál að við tökum takmarkaðan þátt í kostnaði. Hins vegar er það alger lágmarkskrafa að hér verði trúverðugar varnir með tilliti til legu og hlutverks landsins, mikillar flugumferðar og fyrirsjáanlegrar aukinnar skipaumferðar á Norður-Atlantshafi. Eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom að áðan sjáum við það fyrir að siglingar olíuskipa munu aukast mjög ekki síst vegna mikillar olíuöflunar og gasöflunar bæði við Noreg og Rússland og því þurfum við að hafa víðtækt samstarf við okkar vinaþjóðir. Viðræðurnar við Bandaríkin munu halda áfram næstu vikurnar og utanríkismálanefnd mun fylgjast náið með framvindu málsins í góðu samráði við hæstv. utanríkisráðherra eins og verið hefur.

Hæstv. forseti. Undanfarin missiri hefur verið unnið kappsamlega að eflingu íslensku friðargæslunnar. Ísland hefur komið sér á kortið á alþjóðavettvangi og leyst af hendi krefjandi verkefni sem við getum verið stolt af. Þetta er metnaðarfullt verkefni og Ísland hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir framlag sitt. Við höfum talið að best færi á að reka eigin sveit borgaralegra friðargæsluliða sem sinna sérhæfðum þörfum eins og læknar, hjúkrunarfólk, flugumferðarstjórar, slökkviliðsmenn og lögreglumenn svo einhver dæmi séu tekin í stað þess að leggja eingöngu til fjármuni í sameiginlega sjóði alþjóðastofnana. Það hefur verið mjög ánægjulegt að heyra hve þessum íslensku friðargæsluliðum og flugstarfsmönnum hefur vegnað einstaklega vel og er til þess tekið í alþjóðasamstarfi hve Íslendingarnir hafa staðið sig einstaklega vel.

Hæstv. forseti. Ég tel að við eigum að halda áfram á þeirri braut að efla íslensku friðargæsluna og finna okkar farveg innan þeirrar starfsemi. Þannig getum við sem friðelskandi þjóð lagt okkar af mörkum til friðar og öryggis í heiminum svo um munar.

Nú liggur fyrir frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna en nauðsynlegt er að hafa ákveðinn lagaramma utan um starfsemi af þessu tagi, m.a. um réttarstöðu starfsmanna og hlutverk friðargæslunnar að öðru leyti. Það er orðið tímabært að setja slík lög enda hefur íslenska friðargæslan fest sig í sessi sem hluti af utanríkisstefnu Íslands. Utanríkismálanefnd hefur fylgst með uppbyggingu friðargæslunnar og mun halda því verki áfram.

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að Ísland hefur verið að láta alþjóðamál til sín taka í stöðugt meiri mæli en áður hefur einnig aukin áhersla verið lögð á störf Sameinuðu þjóðanna í íslenskum utanríkismálum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gegnir lykilhlutverki í varðveislu friðar og öryggis í heiminum og er mun virkara en áður var og pólitískt vægi þess meira. Þannig má segja að það sé eðlilegt framhald að Ísland sækist eftir sæti í ráðinu og axli þar ábyrgð eins og hin Norðurlöndin hafa gert. Íslenska ríkið er reiðubúið að axla ábyrgð á alþjóðavettvangi og nýtur til þess stuðnings hinna Norðurlandanna við framboðið. Kosningabaráttan verður vafalaust erfið en lærdómsrík fyrir okkur og eins og kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra munu Íslendingar einnig fara að gera sig gildandi meira í mannréttindamálum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra gerði í ræðu sinni grein fyrir þróun viðskiptamála innan EFTA. Íslensk fyrirtæki hafa sótt fram á erlendum vettvangi á undanförnum missirum með undraverðum árangri. Það er okkar stjórnmálamanna að skapa rammann utan um starfsemina og gera þetta kleift. Íslensk stjórnvöld hafa svo sannarlega gert það. Innan EFTA hefur ötullega verið unnið að gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki og er það vel. Því verki verður haldið áfram en frjáls viðskipti eru okkur öllum til hagsbóta. Hæstv. ráðherra gat þess að hann hefði verið á fundi WTO í Hong Kong. Þar var ég líka á vegum Norðurlandaráðs og fylgdist þar með samningaviðræðum. Það var mjög athyglisvert og fróðlegt að hlusta og verða vitni að því hvað íslenska sendinefndin frá þremur ráðuneytum stóð sig einstaklega vel. Það var utanríkisráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið og einstaklega var skemmtilegt að sjá það og athyglisvert hvað íslenska utanríkisþjónustan er vel metin og það er alltaf gott að verða vitni að því. En lotunni er ekki lokið en vonandi fer að sjá fyrir endann á því.

Áður ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, vil ég taka undir með hæstv. utanríkisráðherra varðandi Keflavíkurflugvöllinn að stefna að því að einkafyrirtæki annist rekstur Keflavíkurflugvallar eins og tíðkast annars staðar. Ég tel mikil sóknarfæri í því og tel sjálfsagt að ríkið sé ekki að vasast í því sem það þarf ekki að gera. Til þess eru margir oft betur fallnir en ríkið og ég vil taka undir skoðun hæstv. utanríkisráðherra.

Virðulegur forseti. Utanríkismálin eru fjölskrúðugur og spennandi vettvangur og það er óhætt að gera ráð fyrir að opin umræða um utanríkismál eigi eftir að verða dýpri og meira krefjandi í nánustu framtíð.