132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:02]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að grundvöllurinn að varnarsamstarfinu við Bandaríkin hafi brostið fyrir þó nokkrum árum og öllum ætti að vera það ljóst. Ég held heldur ekki að það sé alveg fyllilega rétt mat að NATO-þjóðirnar hafi ekki verið aflögufærar fram til þessa. Ég get bara minnt á að í gær fengu Norðmenn afhenta fyrstu af fimm nýjum freigátum frá skipasmíðastöð á Spáni.

Norðmenn eru að endurnýja sinn sjóher nánast frá grunni. Þeir eru að láta smíða fyrir sig nýjar freigátur, fimm stórglæsileg og mjög vel búin skip. Þeir eru að fara að kaupa sex nýja kafbáta, nýja tundurduflaslæðara, nýja tundurspilla og nýjar þyrlur. Eftir nokkur ár, árið 2009, stefnir í að norski sjóherinn verði orðinn einn öflugasti sjóher við Norður-Atlantshaf. Þarna eru að verða stórbreytingar.

Ég hygg að það sé einmitt vegna þess að Norðmenn eru svo framsýnir að þeir gera sér fyllilega grein fyrir að Norður-Atlantshaf mun hvernig sem allt fer í alþjóðastjórnmálum áfram verða mjög mikilvægt svæði í heiminum þegar öryggishagsmunir Evrópu og Norður-Ameríku eru annars vegar.