132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umræður um það hvaða NATO-ríki Íslendingar eigi sérstaklega að binda trúss sitt við eftir að Bandaríkjamenn sögðu okkur upp. Ég tel að við eigum að hugsa á mun róttækari vísu og nota þessi tímamót sem við erum á núna til að hugsa málin alveg upp á nýtt og hvort okkur sé ekki betur borgið utan hernaðarbandalaga. Ég tel að öryggi Íslands verði betur tryggt með þeim hætti.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þetta karp hér á þingi um þennan þátt málsins heldur víkja að viðskilnaði Bandaríkjamanna við Ísland og þá stöðu sem fyrirsjáanleg var. Það er fallega gert hjá hv. þingmanni og skiljanlegt að hann vilji sýna ríkisstjórnarflokkunum, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokknum, samstöðu í því erfiða máli. Því erfitt er það. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn reyndar einnig, ríkisstjórnin, sýndi alveg undravert fyrirhyggjuleysi í því máli. Ég ætla að leyfa hv. þingmanni að hafa þessa þanka fyrir sig.

Hitt vil ég gagnrýna þegar hann segir að af hálfu stjórnarandstöðunnar hafi engar tillögur komið fram. Engin mál, aðeins vikið að einhverjum óljósum tillögum um nefndarskipan og þar fram eftir götunum. Þegar málin hafi verið könnuð hafi ekkert verið á bak við slíkt. Ég er með í höndunum fjölmargar tillögur sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram aftur og ítrekað á undanförnum árum með tillögum um hvernig brugðist skuli við þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir og var fyrirsjáanlegur. Í þessum gögnum gerum við ítarlega grein fyrir því hvers vegna við teljum að (Forseti hringir.) allt þetta hafi verið fyrirsjáanlegt.