132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra orðaði það eitthvað á þá leið að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vildi ekki vera með í mótun á stefnu um lausnir og leiðir til að tryggja varnir Íslands. Við teljum okkur eiga fullt erindi í þá umræðu þótt það sé alveg rétt hjá hæstv. formanni Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra að stóru flokkarnir þrír, ég held að hann hafi talað um það svo — og verður mér þá hugsað til stórra flokka og lítils málstaðar, það er nú ekki alltaf samræmi á milli stærðar flokka og málstaðarins — en að stóru flokkarnir þrír, og átti hann þá við Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu, væru sammála um gömlu forsendurnar. Þetta er alveg rétt.

Við teljum hins vegar að við stöndum nú á tímamótum og við eigum að endurskoða þessar gömlu forsendur til þess að tryggja okkur í nýjum tíma í framtíðinni. Þar er það okkar mat að öryggi Íslands yrði betur borgið utan hernaðarbandalaga en innan.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra um eitt atriði og það snýr að Miðausturlöndum og Palestínu. Það geri ég í ljósi ummæla í ræðu hans varðandi Hamas-samtökin og Arafat. Styðja Íslendingar eða íslenska ríkisstjórnin þá stefnu Ísraela að beita ríkisstjórn Palestínumanna aðhaldsaðgerðum, halda skattfé frá stjórnvöldum á meðan Hamas er við völd, styðjum við þetta? Eða ætlum við að mótmæla þessu og mótmæla jafnframt apartheid-múrnum sem verið er að reisa í Palestínu?