132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örlítið meira um gamla stefnu og gamaldags stefnu. Í ræðu minni fór ég aðeins yfir nýjar hugmyndir sem stór hluti heimsbyggðarinnar er núna að opna eyru sín fyrir, þ.e. hugmyndir er lúta að þátttöku kvenna í friðaruppbyggingu í heiminum. Ég hefði vænst þess af hæstv. utanríkisráðherra að hann eyddi að minnsta kosti einu orði eða einni setningu í lokaræðu sinni á þessar hugmyndir og varð fyrir vonbrigðum með að hann skyldi ekki gera það. Mig langar því til vita hvort hæstv. ráðherra hafi einhver svör um hvort ekki sé kominn tími til að Íslendingar reyni að tileinka sér nýjar hugmyndir í þessum efnum, hugmyndir sem byggja á að yfirgefa hinar gömlu leiðir þar sem einungis er skoðað vopnavald, vopnaður friður, ógnaröryggi og þvílíkir hlutir sem hernaðarbandalagið NATO predikar, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna predikar, og sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt eftir í blindni.

Það er einmitt þetta sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur viljað leiða hér inn á sviðið og leiða inn í umræðuna og fær allt of lítil viðbrögð við. Það er auðvitað til skammar að stjórnvöld hér skuli alltaf ýta þeim málflutningi út af borðinu með því að brosa í kampinn og segja að við viljum ekki vera með. Sannleikurinn er sá að hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eru hugmyndir um að fara aðrar leiðir. Við fáum aldrei málefnaleg svör frá þessari ríkisstjórn um það hvort við höfum ekki talsvert til okkar máls.

Af hverju er það sem stjórnvöld vilja ekki ljá þessum nýju leiðum þanka? Það er vegna þess að menn eru hræddir, kannski hræddir við refsingu frá foringjanum handan við hafið. Kannski hræddir um að fá ekki að vera með í þessum leik sem er úreltur og gamaldags leikur sem byggir á ógnarjafnvægi og vopnavaldi.