132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar alltaf með sínum hætti um Atlantshafsbandalagið og á allt öðrum forsendum en flestir þingmenn. Reyndar má segja það um alla þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Atlantshafsbandalagið er náttúrlega varnarbandalag sem varð til af brýnni nauðsyn á sínum tíma og sem þjóðirnar í Mið- og Austur-Evrópu hafa þráð og keppst við að reyna að komast inn í og vera með í til að gæta hagsmuna sinna og verjast. Svo má búa til alls kyns orðaleppa um þær hugsjónir allar saman. Ég ætla ekki að blanda mér í það.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði um UNIFEM í fyrri ræðu sinni og ég hafði nú punktað hjá mér en mér láðist að nefna það, þá vildi ég bara að það kæmi fram að frá því í fyrra hefur framlag íslenska ríkisins til UNIFEM margfaldast. Ég hef beitt mér sérstaklega fyrir því og fengið sérstakt tilskrif frá UNIFEM á Íslandi í þakklætisskyni vegna þess. Ég tel að UNIFEM sé að gera mjög merkilega og góða hluti víða í heiminum og við eigum að reyna að leggja okkar litla lóð á þær vogarskálar eins og við gerum núna miklu víðar en áður í sambandi við ýmis verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra undirstofnana þeirra til að láta gott af okkur leiða.

Þetta vildi ég bara nefna. Ég man ekki tölurnar nákvæmlega, hvort þetta eru 20 millj. sem við erum að leggja í það, sem er mjög mikil aukning. En ég held að það komi allt í góðan stað niður þó svo ég deili kannski ekki öllum hugmyndum þingmannsins um hlutverk kvenna á vígvellinum eða ekki á vígvellinum í sambandi við þessi alþjóðamál. Ég er ekki alveg viss um að ég skilji alltaf nákvæmlega hvað hún er að fara í þeim efnum.