132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að ríkisstjórnin hefur hækkað framlag sitt til UNIFEM og það er sannarlega vel og á auðvitað að þakka það. Það er gott til þess að vita að ríkisstjórnin skuli vera að taka eftir því starfi sem unnið er hjá UNIFEM og ég veit að þeir fjármunir sem hafa verið látnir til þess starfs héðan koma í góðar þarfir og fara í góð verkefni.

Hins vegar tel ég að ríkisstjórnin megi kíkja betur t.d. á þann litteratúr sem UNIFEM gefur út. Af því að bókagjöfin frá því í gær kom hér aðeins til tals í frammíkalli hjá mér áðan þá finnst mér kaldhæðnislegt að sjá sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi koma með 200 bækur um hernaðarlegar varnir til íslensku þjóðarinnar á þessum tíma. Það er auðvitað kaldhæðnislegt að þetta skuli gerast einmitt núna þó að hæstv. utanríkisráðherra segi að það sé tilviljun. Ég er ekkert að ætla þessu neitt annað en að það sé tilviljun. En það er samt alveg ótrúlega kaldhæðnislegt að sjá þetta gerast nú.

Í lok þessarar umræðu er kannski rétt að brýna hæstv. utanríkisráðherra til að bæta þá í þetta bókasafn, að við sitjum ekki uppi með að háskólinn hafi kannski það eitt til málanna að leggja í varnar- og friðarmálum sem stendur í einhverjum amerískum bókmenntum, hvernig eigi að fara að. Þær aðferðir sem Bandaríkjamenn beita í þessum málum hafa nú ekki reynst vel. Þannig að ég ætla að vona að það sé hægt að koma rausnarlega til móts við háskólann eða þjóðina með því að setja inn í bókasafnið litteratúr um frið. Þar á meðal litteratúr sem UNIFEM hefur gefið út og Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út. Því auðvitað verðum við að sjá til þess að þarna sé ákveðinn ballans og nýju hugmyndirnar fái sama sess og ekki síðri en þær gömlu.