132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég átti mjög fínan og málefnalegan fund sl. föstudag með góðum fulltrúum þeirra kvenna sem hafa verið í setuverkfalli. Það er alveg ljóst að þær vilja svipuð laun og verið er að borga fyrir sambærileg störf hjá sveitarfélögunum.

Ég verð að viðurkenna það, hæstv. forseti, að ég hef miklar áhyggjur af þessari deilu. Það er vegna þess að hún getur bitnað á þjónustunni sem íbúum þessara stofnana er veitt. Seinna í dag mun samninganefnd samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem reka hjúkrunarheimilin funda ásamt stéttarfélaginu Eflingu. Það er mjög eðlilegt í stöðunni því að það eru heimilin sjálf og stéttarfélagið sem semja um taxtana. Ég mun að sjálfsögðu fylgjast mjög náið með því sem kemur út úr þeim fundi og þróun mála í framhaldinu af því að ég hef áhyggjur af þeirri þjónustu sem íbúar þessara stofnana fá. Ég tel að það verði að leysa þessa deilu en það er mjög snúið mál. Ég ítreka að fundur minn sl. föstudag á Hrafnistu í Reykjavík með fulltrúum þeirra kvenna sem hafa verið í setuverkfalli var mjög góður, málefnalegur og uppbyggilegur.