132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:11]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Það var afar athyglisvert að hlusta á síðasta ræðumann tala um að ekkert hefði gerst í byggingu vegna aldraðra í Reykjavík. R-listinn hefur akkúrat ekkert gert í Reykjavík. Síðasta hjúkrunarheimilið sem var byggt er Skógarbær og það voru sjálfstæðismenn búnir að plana. Loforð sem hv. þingmaður talar um var loforð um að Eir og Hrafnista mundu byggja 100 rými. En allt um það.

Það sem málið snýst hér um er fyrst og fremst fólk sem starfar á þessum sjálfseignarstofnunum og hefur miklu lægri laun en það fólk sem starfar á hjúkrunarheimilum sveitarfélaganna. Þarna á milli er orðin gjá sem auðvitað verður að brúa. Það fólk sem sinnir þessari þjónustu á hjúkrunarheimilum er allt of lágt launað. Það leggur fram mikla vinnu, óeigingjarna vinnu, og við verðum svo sannarlega að mæta þeirri kröfu sem hefur komið þar fram.

Aðeins vegna ummæla hæstv. heilbrigðisráðherra í útvarpsviðtali ekki fyrir löngu þar sem vitnað var til orða minna um að 720 millj. lægju inni á reikningi hjá heilbrigðisráðuneytinu. Þetta er orðin hálfgerð hringavitleysa. Það fæst ekki fólk til að sinna þeim öldruðu og sjálfseignarstofnanirnar geta ekki tekið inn fólk og þar af leiðandi lækkar reikningurinn frá Tryggingastofnun ríkisins til útborgunar.

Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um að þetta væri reikningur sem lægi vegna byggingarkostnaðar, að það fé hefði ekki verið nýtt til að byggja hjúkrunarheimili. Það er alrangt. Ég er með bréf frá fjármálaráðuneytinu vegna ummæla sem komu fram í fjárlaganefnd og hér segir, með leyfi forseta:

„Stofnkostnaðarafgangur vegna byggingar hjúkrunarheimilis er ekki innifalinn í þessum 720 milljónum sem fjármálaráðuneytið hefur sýnt okkur.“ — Virðulegi heilbrigðisráðherra. Það er eitthvað að. Það þarf að skerpa á sambandi (Forseti hringir.) milli þessara tveggja ráðuneyta, það er greinilegt.