132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:13]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Hjúkrunar- og öldrunarþjónustan er í algjöru uppnámi og hér eru stjórnarliðar að rífast um það hver eigi að taka á málinu. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur bara verulegar áhyggjur — en gerir ekki neitt. (KolH: … fjármálaráðherra.) (Gripið fram í.) En fjármálaráðherra situr hér og tekur ekki einu sinni þátt í umræðunni. (Gripið fram í: Þetta er fáránlegt.) Þetta er algjör vanvirðing við það fólk sem sinnir umönnunarstörfum og þetta er algjör vanvirðing við þá öldruðu sem þurfa þjónustu.

Í síðustu viku var tveggja daga lágmarksþjónusta á átta hjúkrunarheimilum og ef umönnunarstéttirnar segja upp eins og allt stefnir í verður lítil sem engin þjónusta. Sjálfstæðisframbjóðendur í borginni lofa öldruðum öllu fögru en þeir sem ráða hér, flokksbræður þeirra, gera ekki neitt. Þeir halda að sér höndum. Umönnunarstéttirnar á hjúkrunarheimilunum hafa sýnt aðdáunarvert langlundargeð í kjarabaráttu sinni. Þetta eru þúsund manns, 99% konur, með 100 þús. kr. á mánuði, kannski 120 þús. ef þær hafa verið lengi í þessum störfum. Þetta eru laun sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni kallaði „þjóðarskömm“. Það er rétt, þessi launakjör starfsfólksins eru hneyksli og þau eru ekki boðleg fyrir þau erfiðu og mikilvægu störf sem þeir sinna.

Það eru fundir í dag. Það eru fundir hjá Eflingu síðdegis og það eru fundir þeirra sem reka hjúkrunarheimilin með starfsfólkinu. En þetta ástand breytist ekki nema tekið verði á daggjöldunum og það geta þeir sem hér sitja gert. Hækkun til þessa fólks verður að rúmast innan daggjaldanna. Lausnin er hér og hvernig stendur á því að menn sitja aðgerðalausir, lýsa yfir áhyggjum en aðhafast ekki neitt? (KolH: Það er enginn vilji.) Það er enginn vilji til nokkurra aðgerða og ég ítreka það, öll umönnunarþjónusta mun lamast (Forseti hringir.) ef ekkert verður að gert og ég spyr hæstv. ráðherra: Ætla þeir nú ekki að taka á honum stóra sínum og leysa málið?