132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það liggur ljóst fyrir að ófaglærðir starfsmenn á öldrunar- og heilbrigðisstofnunum munu funda um málefni sín og að jafnvel komi til fjöldauppsagna ef ekki verður brugðist við þessum málum. Þau hafa iðulega verið rædd hér í Alþingi og fengið vægast sagt ákaflega lítil viðbrögð af hálfu stjórnarliða.

Þó að menn lýsi núna, eins og hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, yfir miklum áhyggjum af þessari deilu er ekki hægt að finna því stað að svo hafi verið til skamms tíma. Þarf ekki að vitna nema til umræðu um fjárlögin, til ræðu sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson flutti þegar hann mælti fyrir áliti 1. minni hluta sem ég var samþykkur. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Töluverð umræða hefur spunnist um bið eftir fullnægjandi þjónustuúrræðum og um aðbúnað íbúa hjúkrunarheimila sem mörg hver fullnægja engan veginn lágmarkskröfum sem eðlilegt er að gera til slíkrar starfsemi. Þjónusta utan stofnana hefur á sama tíma staðið í stað eða jafnvel dregist saman þrátt fyrir yfirlýst markmið um að hana beri að auka. Fyrirliggjandi frumvarp“ — þ.e. fjárlagafrumvarpið — „gefur ekki til kynna að stjórnvöld ætli að taka á þessum vanda á næsta ári né er þar að finna nein fyrirheit um framtíðaruppbyggingu þessarar þjónustu. 1. minni hluti gerir því tillögu um auknar fjárveitingar til þessa málaflokks.“

Þetta var við afgreiðslu fjárlaga í desember síðastliðnum. Ríkisstjórnarflokkarnir höfnuðu þessari viðbótarfjárveitingu. Þeir höfðu ekki mikinn áhuga á að taka á málinu. Núna koma menn hér upp þegar allt er komið í óefni og segja: Við höfum miklar áhyggjur af þessum málum og þurfum endilega að leysa þau. (Gripið fram í: … gera það.)