132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:17]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli að hæstv. fjármálaráðherra þegir hér þunnu hljóði og telur sig greinilega ekkert þurfa að segja við umönnunarstéttirnar sem búa við hungurlaun í þessu þjóðfélagi. Hæstv. heilbrigðisráðherra segir að hún hafi áhyggjur. En það er ekki nóg að hafa áhyggjur, virðulegi forseti. Það þarf að höggva á hnúta og það er orðin þjóðarnauðsyn að ráðherrarnir hristi af sér doðann, hætti að benda hvor á annan og leysi þetta mál.

Ráðherrarnir komast engan veginn upp með annað en að leysa málið nú þegar, enda finnur maður það úti í samfélaginu að þjóðin gerir kröfur til þess og að enginn undansláttur í þessu máli af hálfu ráðherranna verður liðinn. Allt of stór hópur, ekki síst í umönnunarstörfum, hefur orðið undir í góðæri liðinna ára og það verður að gera þjóðarátak til að snúa þessari þróun við.

Við í Samfylkingunni höfum lagt til á Alþingi að þegar í stað fari fram hlutlaus rannsókn og endurmat á störfum láglaunahópanna, að lögð verði fram aðgerðaáætlun um hvernig auka megi hlut þeirra í tekjuskiptingunni og bæta kjör þeirra og aðbúnað með stjórnvaldsaðgerðum og í kjarasamningum.

Á flokksstjórnarfundi hjá Samfylkingunni síðasta laugardag var samþykkt ályktun þar sem þess var krafist að nú þegar yrðu laun umönnunarfólks á hjúkrunar- og dvalarheimilum hækkuð til samræmis við það sem gert hefur verið hjá Reykjavíkurborg. Það er grundvallaratriði til að hægt sé að bæta aðbúnað aldraðra að það verði gert, að kjör þessa hóps verði leiðrétt.

Ég spyr, virðulegi forseti: Er ekki kominn tími til að ráðherrarnir stígi nú niður úr fílabeinsturninum og viðurkenni að aldraðir og umönnunarstéttir hafa gjörsamlega verið sett til hliðar í stjórnartíð þeirra? Auðvitað er besta kjarabótin fyrir þetta fólk að greiða atkvæði gegn þessari ríkisstjórn í næstu kosningum.