132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Þátttaka ráðherra í umræðu.

[15:29]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil tala um fundarstjórn forseta vegna þess að ég held að það hafi ekki farið fram hjá nokkrum manni í þingsalnum þegar hæstv. fjármálaráðherra ákvað að falla frá orðinu í upphafi þessarar umræðu. Hér hóf þingmaður, Þuríður Backman, þessa umræðu með því að beina ákveðnum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra. Heilbrigðisráðherra svaraði en fjármálaráðherra féll frá orðinu, ákvað að taka ekki þátt í þessari umræðu í upphafi hennar.

Það hefði auðvitað breytt talsverðu fyrir umræðuna alla ef hann hefði komið hér upp og talað eins og aðrir í umræðunni og axlað sína ábyrgð á málinu strax í upphafi umræðunnar í stað þess að fara að eins og Berlusconi, koma á lokamínútu umræðunnar þannig að þau orð sem hann lét hér falla væru ekki undir í umræðunni þegar hún fór fram. Ég hlýt að mótmæla því, virðulegur forseti, að ráðherrar standi þannig að málum og að forseti stýri fundi með þeim hætti.