132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:35]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og frumvarp sem forsætisráðherra leggur fram um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð. Markmið frumvarpsins er að endurskipuleggja alla starfsemi iðnaðarráðuneytisins sem fjallar um tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun í þeim tilgangi að gera hana markvissari og árangursríkari. Slík endurskipulagning er nauðsynleg í ljósi breyttra atvinnuhátta vegna aukinnar samkeppni um erlend samstarfsverkefni og vegna þess að skapast hefur svigrúm til að færa meira af verkefnum út á almennan markað. Með endurskipulagningu er unnt að ná fram samlegðaráhrifum sem eru langt umfram þann árangur sem vænta má ef starfsemin er rekin í aðskildum einingum. Einnig er horft til þess að með endurskipulagningunni má auka árangur af samstarfi við háskóla og fyrirtæki. Til að ná þessum markmiðum er lagt til að ný stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, verði til við sameiningu Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.

Starfssvið þessara þriggja stofnana er að mörgu leyti hliðstætt og skarast að nokkru leyti, enda er hlutverk þeirra allra að vinna að nýsköpun og atvinnuþróun í þágu samkeppnisstöðu landsins og bættra lífskjara. Hvatinn að sameiningunni er fyrst og fremst þörf fyrir sterkari starfseiningar og vaxandi krafa um sveigjanleika og meiri árangur.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður þekkingarsetur sem erlendis eru nefnd „Center of expertise“. Í þekkingarsetri tengjast saman tæknirannsóknir með tengsl við rannsóknir í háskólum og háskólasetrum annars vegar og þróunarstarfsemi fyrirtækja hins vegar. Þar verður miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem fást við hvers konar nýsköpunarvinnu. Þar verður að finna frumkvöðlasetur sem aðstoðar sprotafyrirtæki og frumkvöðla við þróun nýsköpunarhugmynda og veitir þeim aðstoð við að vaxa fyrstu rekstrarárin. Þá verður unnið að greiningu á stöðu og þróun atvinnulífs og byggðarlaga, m.a. til að unnt verði að bregðast við aðsteðjandi vanda hverju sinni með öllum þeim tækjum sem þekkingarsetrið Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun búa yfir.

Efling starfseminnar á landsbyggðinni er ein af forsendum þessara breytinga. Atvinnuþróunarfélög og atvinnuráðgjafar fá veigameira hlutverk en áður með því að stefnumótun og framkvæmd verkefna verði í auknum mæli færð heim í hérað. Þekkingarsetur á landsbyggðinni verða þungamiðja atvinnusóknar sem einkum mun byggja á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði og getu þess til að ná árangri á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Einkum er horft til uppbyggingar þekkingarsetra á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum (Miðausturlandi) enda hefur styrking landshlutakjarna á þessum stöðum verið eitt af markmiðum byggðaáætlana stjórnvalda.

Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarsetur Austurlands mynda nú þegar kjarna vaxtar í þekkingarsetrum á þessum stöðum. Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem fer fram í rannsókn á Nýsköpunarhúsinu og enn frekari vöxtur rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi í væntanlegum Tæknigarði er sú umgjörð sem mun mynda kjarna starfseminnar þar.

Það er ljóst að með þessum tillögum vill iðnaðarráðuneytið blása til nýrrar sóknar í rannsóknum og atvinnuþróun um allt land. Slíkrar sóknar og endurnýjunar er þörf enda eru framfarir örar, og til að njóta bættra lífskjara í framtíðinni verða að koma til nýjar áherslur sem atvinnuþróunin getur byggt á.

Hlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er í frumvarpinu skipt í sex meginþætti sem raktir eru í 2. gr. frumvarpsins.

Í fyrsta lagi er lagt til að stofnuninni beri að stuðla að framförum í atvinnulífinu með þekkingarmiðlun og stuðningsþjónustu við frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, m.a. með rekstri þjónustumiðstöðva. Þá ber stofnuninni að efla samstarf á milli rannsóknastofnana, háskóla og fyrirtækja og styrkja tengsl þeirra við atvinnuþróunarfélög.

Í þriðja lagi skal stofnunin stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar og prófanir, mælingar og vottanir. Í fjórða lagi ber henni að greina stöðu og þróun búsetuskilyrða og atvinnulífs í landinu og vinna áætlanir sem hafa það að markmiði að stuðla að samkeppnishæfni atvinnulífs og treysta byggð í landinu.

Í fimmta lagi að fara með málefni sérstakra sjóða eftir því sem nánar er kveðið á um í frumvarpinu og loks í sjötta lagi að fjármagna verkefni á grundvelli samninga, t.d. vaxtarsamninga, til að ná tilteknum markmiðum í atvinnuþróun.

Í II. kafla frumvarpsins eru ákvæði um starfsemi þjónustumiðstöðvar fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Þjónustumiðstöð sem þessi hefur verið rekin um nokkurt skeið hjá Iðntæknistofnun Íslands undir heitinu Impra og hefur starfsemi hennar þótt gefa góða raun. Ekki er lagt til með frumvarpinu að breyting verði gerð á starfsemi Impru að öðru leyti en því að hún mun taka þeim breytingum sem fylgja samþættingu starfseminnar við sambærilega starfsemi sem rekin er á þróunarsviði Byggðastofnunar.

Í III. kafla frumvarpsins eru ákvæði um þá rannsóknastarfsemi sem starfrækja skal á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Lagt er til að í starfseminni skuli áhersla lögð á hagnýtar rannsóknir og vöruþróun í þágu nýsköpunar atvinnulífsins auk þess sem stundaðar skuli grunnrannsóknir á afmörkuðum sviðum sem hafa þjóðhagslega þýðingu.

Í IV. kafla er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður á grundvelli fjármálastarfsemi Byggðastofnunar er nefnist Byggðasjóður. Hlutverk hans verði að veita ábyrgðir á lán banka sem m.a. eru veitt til stofnunar fyrirtækja, nýrra fjárfestinga og nýsköpunar á landsbyggðinni. Lagt er til að Byggðasjóði verði heimilað að veita ábyrgðir með allt að 75% ábyrgðarþátttöku sjóðsins. Fimm manna stjórn sjóðsins verði skipuð til þriggja ára í senn en hlutverk hennar verði að setja reglur um starfsemi hans og skilyrði fyrir veitingu ábyrgða sem háðar eru samþykki fjármálaráðherra. Veiting lánsábyrgða er vel þekkt aðferð og eru starfræktir lánsábyrgðarsjóðir í nær öllum Evrópulöndum sem gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja fyrirtækjum aðgang að fjármagni. Opinberir aðilar í nágrannalöndum veita slíka þjónustu og hefur hún þótt gefa góða raun.

Í V. kafla er lagt til að Tækniþróunarsjóður verði vistaður í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Tækniþróunarsjóður starfar í dag á grundvelli laga nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Ekki eru lagðar til breytingar á hlutverki sjóðsins og úthlutunarreglum við flutninginn. Lagt er til að hlutdeild atvinnulífsins í stjórn sjóðsins verði aukin og Samtök atvinnulífsins tilnefni tvo menn í stjórn sjóðsins en á móti falli niður að formaður tækninefndar sitji í stjórninni og annar maður tilnefndur af Rannsóknastofnunum atvinnulífsins.

Í VI. kafla er lagt til að starfræksla tryggingardeildar útflutnings verði færð frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Lagt er til að heiti sjóðsins verði breytt og hann kallaður Tryggingarsjóður útflutnings í stað tryggingardeildar útflutnings. Ekki er með flutningnum lagt til að gerðar verði breytingar á hlutverki og starfsemi sjóðsins að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins tilnefni einn mann af fimm í stjórn sjóðsins heldur verði einn stjórnarmanna skipaður af Samtökum atvinnulífsins. Sjóðurinn flytur með sér eigið fé og heldur skyldum sínum gagnvart viðsemjendum sínum.

Hæstv. forseti. Hér er í hnotskurn lagður grunnur að nýrri sókn í atvinnuþróun sem mun fyrst og fremst byggja á innleiðingu nýrrar þekkingar og færni sem er forsenda uppbyggingar og endurnýjunar atvinnulífsins í stað þess sem látið hefur undan síga vegna breyttra ytri aðstæðna. Mikilvægt er að allir landshlutar og allir landsmenn fái sömu tækifæri til að taka átt í þeirri endurnýjun sem færa mun þeim ný og vel launuð störf. Þessar breytingar eru nauðsynlegt andsvar við þeirri stöðnun sem annars blasir víða við.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.