132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmaður koma óþarflega neikvæður inn í þessa umræðu með því að koma fram með spurninguna: Hvað á þetta skylt við byggðamál? Eins og við höfum oft talað um á hv. Alþingi koma byggðamálin víða við. Sú starfsemi sem hv. þingmaður nefndi og fer fram núna í Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins getur alveg fallið inn í þá stofnun sem við erum að tala um, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, án þess að það verði nokkuð til vandkvæða, og frekar henni til framdráttar.

Að sjálfsögðu eru þessi verkefni sem við erum að tala um að verði vistuð í Nýsköpunarmiðstöð Íslands af ýmsum toga. Það er ekki allt sem beinlínis er hægt að tala um að sé á sviði atvinnuþróunar. Þó fellur þetta ágætlega saman og þess vegna er lagt til að þessar stofnanir þrjár verði að einni stofnun. Ég sé mikil tækifæri því samfara, ekki síst fyrir landsbyggðina, og þegar tímar líða fram (Forseti hringir.) getur störfum fjölgað þar.