132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:49]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Með þessu frumvarpi er verið að breyta Byggðastofnun. Ég tel þá rétt að gera að einhverju leyti upp það starf sem hefur farið þar fram. Eitt þeirra mála sem er ólokið er ásakanir fyrrum stjórnarformanns Byggðastofnunar, Kristins H. Gunnarssonar, á hendur fyrrum forstjóra. Hann lét þungar ásakanir falla um lögbrot fyrrum forstjóra í lok síðasta árs á Útvarpi Sögu.

En svo undarlegt sem það er var viðkomandi fyrrum forstjóri leystur út með tugmilljóna starfslokasamningi. Við bentum ríkislögreglustjóra á að þarna væri maður sem væri sakaður um lögbrot af fráfarandi stjórnarformanni leystur út með starfslokasamningi. Við vöktum athygli ríkislögreglustjóra á málinu. Við rákum á eftir því og upp úr dúrnum kom að það sem stæði í veginum fyrir því að hægt væri að (Forseti hringir.) ganga í málið væri það að hæstv. iðnaðarráðherra hefði ekki svarað neinu um málefnið hjá ríkislögreglustjóra. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég spyrja, frú forseti, hvort von sé á að hæstv. (Forseti hringir.) iðnaðarráðherra svari.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn að virða þann ræðutíma sem þeim er skammtaður.)