132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:52]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það stendur ekki í frumvarpstextanum að höfuðstöðvarnar skuli vera á Sauðárkróki, heldur er það í valdi ráðherra. Ég hef sagt mjög skýrt að þær skuli vera á Sauðárkróki þannig að ég held að það þurfi ekkert að ræða frekar. Þar verður sem sagt yfirstjórn þessarar nýju stofnunar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og það þýðir að þar fer fram stjórnsýsla. Eins reikna ég með að sú starfsemi sem Byggðasjóði tengist fari fram á Sauðárkróki, og kannski eitthvað fleira. Þetta eru náttúrulega hlutir sem ekki er búið að móta alveg til enda en það er a.m.k. ákveðið að starfsfólki verður ekki fækkað. Ég held að það sé kannski aðalatriðið og það sem hv. þingmaður er að velta fyrir sér.