132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:54]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg innilega sammála hv. þingmanni með að það er mikilvægt líka á Sauðárkróki að tengja saman háskólastarf, rannsóknir og starfsemi fyrirtækja eins og er gert svo myndarlega í Verinu þar sem við vorum bæði viðstödd þegar það var formlega opnað fyrir skömmu. Það sem frumvarpið ber í sér gefur svo mörg tækifæri, einmitt á landsbyggðinni, til uppbyggingar í líkingu við það sem á sér stað á Sauðárkróki.

Þó að við höfum sérstaklega talað um Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði í þessu sambandi, þegar talað er um þekkingarsetur, höfum við líka alltaf haldið því til haga að við erum að tala um miklu fleiri staði þar sem kominn er vísir að þekkingarsetrum. Þau þekkingarsetur er hægt að efla og skapa þannig ný tækifæri fyrir landsbyggðina.