132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[16:30]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það sem mér finnst helst undarlegt í þessu máli öllu saman er að vera búin að sitja fundi í iðnaðarnefnd þar sem verið er að ræða framtíð Byggðastofnunar og lesa það svo í blaði daginn eftir að henni sé kannski ætlað allt annars konar hlutverk.

Mér finnst kannski eins og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og Kristjáni Lúðvík Möller, ég hef efasemdir um að draga Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins inn í þetta því það sem hér kom fram áðan varðandi það finnst mér eins og fleirum ekki endilega eiga samleið með Byggðastofnun þó svo að hæstv. ráðherra væri að færa rök fyrir því.

Eins og fram hefur komið hefur Byggðastofnun helst verið sú stofnun sem fyrirtæki á landsbyggðinni hafa leitað til til að koma á fót starfsemi sem enginn annar hefur viljað veita lánsfé í. Ég tek undir það með þeim þingmanni sem talaði áðan að ef markmiðið er að stofnunin verði sjálfbær þá er þetta kannski komið á almennan lánamarkað hvort sem er og ekki þörf fyrir hana, þ.e. ef stefna stjórnvalda er sú að Byggðastofnun sé rekin eins og hver önnur lánastofnun.

Annað finnst mér líka vera athugunarvert í þessu frumvarpi og ég hef efasemdir um að fyrirtæki á landsbyggðinni hafi þennan greiða aðgang. Ég var að lesa tillögu til Vísinda- og tækniráðs, vegna stefnumótunar. Afskaplega vel orðað plagg sem mér sýnist að Nýsköpunarmiðstöð Íslands eigi að byggja á. Mér finnst ekki vera neitt fast í hendi í því þegar ég horfi til landsbyggðarinnar sem mér finnst Byggðastofnun fyrst og fremst eiga að þjóna. Ég get alveg tekið undir að hér kom fram áðan að Byggðastofnun hafi komið seint inn í. Ráðherra svarar því til að það sé ekki eins seint og við töldum. En þá er kannski líka undarlegt að iðnaðarnefnd hafi ekki haft vitneskju um að þetta væri í farvatninu eða það kom a.m.k. ekki fram á fundi hennar sem ég sat þar sem framtíðarstefna Byggðastofnunar var rædd.

Það kemur fram í þessu frumvarpi að hópurinn fjallaði um samþættingu, sem hér hefur aðeins verið rædd, og ég sé alveg færi á því að í sameinaðri starfsemi Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins fari fram sá tæknilegi hluti. Vissulega er það svo að þeir sem leita til Byggðastofnunar og einnig stofnunin sjálf geta haft hag af því að geta nýtt sér það sem fer fram í hinum tveimur stofnununum. En ég er alltaf svolítið efins við eitthvað eitt risastórt og hef ekki trú á að þetta sé endilega til einföldunar þótt vissulega megi einfalda þetta kerfi. Það er alveg þörf á að einfalda það og það hefur komið fram í umræðunni og ég er ekkert fráhverf því, fólk er að sækja um jafnvel á marga staði vegna sömu hluta. En það er eitt að einfalda kerfið en annað að skella öllu saman í eitt stórt. Það hlutverk sem Byggðastofnun hefur og er aðeins rakið hér, ég er hrædd um að það gæti orðið undir af því það er hvergi kveðið skýrt á um hve nákvæmlega, eða mér finnst það að minnsta kosti ekki, hver hefur hvað undir höndum. Hér er rakið að fjármögnunarhlutverkið fellur undir fjármögnun verkefna og veitingu lána. Og einnig að atvinnuþróunin er nátengd starfsemi nýsköpunarmiðstöðvar Impru á Iðntæknistofnun.

Impra og Nýsköpunarmiðstöðin og það sem þar hefur farið fram í tengslum við Byggðastofnun eru þættir sem alveg er hægt að sameina en það er alger óþarfi að leggja þetta allt undir eitt. Það hefur verið talað um að Byggðastofnun sinni grundvallarhlutverkum ekki nægilega vel. Það get ég tekið undir. En ég tel ekki að það sé vegna þess að ekki sé vilji til þess heldur kannski fyrst og fremst það sem hér hefur komið fram áður en það er fjárvöntun. Fjárvöntun Byggðastofnunar er auðvitað ekkert leyst í sjálfu sér með því að skella stofnuninni saman við hinar tvær.

Starfshópurinn gerir tillögur um eftirfarandi efnisatriði, með leyfi forseta:

„Að grundvallarbreytingar verði á fjármögnunarstarfsemi Byggðastofnunar þannig að hún verði fjárhagslega sjálfbær.

Fjármögnunartæki og vinnubrögð verði þróuð sem miða að því að efla samstarf við fjármálafyrirtæki sem geri fjármögnun atvinnustarfsemi á landsbyggðinni auðveldari.

Árangur á sviði byggðamála verði aukinn með skýrri stefnumótun stjórnvalda, ásamt bættri og skýrari forgangsröðun verkefna.

Sérstaklega verði hugað að frekari samhæfingu eða samþættingu starfsemi Byggðastofnunar, Impru og Iðntæknistofnunar með það að markmiði að tryggja sterka stöðu og sýnileika byggðamála í þeirri starfsemi sem ætlað er að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun.“

Ég er alltaf svolítið efins um að hlutunum sé miðstýrt úr svona stóru apparati, þá verði hætta á að landsbyggðin verði undir og þessi litlu fyrirtæki, að einstaklingar sem fá þessar hugmyndir fái ekki fyrirgreiðslu frá bönkum vegna þess að þeir telja hugmyndina ekki arðbæra. Svo er auðvitað spurningin um ábyrgðir, styrki eða lán. Það má líka velta fyrir sér hvort það er eitthvað sem t.d. einyrkjum stendur til boða eins og verið hefur að einhverju leyti í gegnum Byggðastofnun.

Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem sagði hér áðan í andsvörum sínum að það væri miklu frekar að tengja Byggðastofnun við háskólana sem eru á svæðinu, bæði Hólaskóla og Háskólann á Akureyri og nýta þannig þá þekkingu sem þar er til staðar. Það er talað um að í Nýsköpunarmiðstöð Íslands eigi að vinna að greiningu á stöðu og þróun atvinnulífs og byggðarlaga þannig að hægt sé að bregðast við aðsteðjandi vanda hverju sinni. Þetta hefur líka verið á byggðaáætlun og átti að gera og vera búið að gera held ég, en hefur ekki verið gert, svo það er ekki nóg að hafa eitthvað fallegt á blaði sem ekki vex eða verður eitthvað.

Það er talað líka um að samstarf stofnunarinnar verði mótað í gegnum vaxtarsamninga og ég er alveg á því. Við erum með vaxtarsamning í Eyjafirði sem hefur reynst alveg ágætlega. Af hverju er ekki hægt að halda áfram á sömu forsendu? Af hverju þarf að breyta þessu til að það sé hægt? Við vitum að þær þekkingargreinar sem hér hafa verið að byggjast upp hafa fyrst og fremst verið á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni. Ég sé ekki endilega að það breytist. Mér finnst ekki vera færð rök fyrir því í þessu frumvarpi að það breytist þrátt fyrir að stofnanir sameinist hér. Enda kemur fram að það hafi ekki náðst að fylgja því eftir núna og ég sé ekki að það breytist með þessu. Eins og ég segi, ég held að þetta verði flókið. Ég held að þetta verði stórt. Þetta verði ólíkt og að auki ekki þessi samkeppnishæfni eða nýsköpun, hvað þá lífskjörin. Eins og ég segi, ég átta mig ekki á því hvernig þetta virkar. Þetta er allt mjög fallegt hér á blaði en mér finnst ekkert í sjálfu sér vera komið sérstaklega inn á það sem við vorum t.d. í hv. iðnaðarnefnd að fjalla um að væri fyrst og fremst verkefni Byggðastofnunar.

Það er reyndar farið ofan í samkeppnisstöðu atvinnulífsins og þar eru raktar fjórar meginástæður sem eru taldar liggja til grundvallar því að stofnanirnar séu sameinaðar. En þar er t.d. Byggðastofnun ekki tekin fram í lið 2, heldur eingöngu sameining Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins. Reyndar er rætt um sameiningu matvælarannsókna fjögurra opinberra rannsóknastofnana.

Hlutverk Impru er, eins og hér segir, í hnotskurn að hlúa að nýsköpun í atvinnulífinu og vera tengiliður. Hún rekur þetta frumkvöðlasetur sem mér sýnist að stefnt sé að, að Nýsköpunarmiðstöðin eigi að vera. Hér eru þessi nánu tengsl við þróunarstarfsemi Byggðastofnunar með innleiðingu klasasamstarfs. Hæstv. ráðherra hefur talað um að stofnanir eins og Impra, klasasamstarfið og frumkvöðlasetrin hafi gengið ljómandi vel og þá velti ég fyrir mér af hverju þurfi að breyta þessu ef þetta gengur allt svona ágætlega. Vissulega eins og ég sagði hér í upphafi er margt sem hægt er að einfalda. Mér finnst þetta ekki vera einföldun og þegar ég hef verið að lesa þetta þá hef ég ekki rekið mig á að þetta einfaldi málin. Eins og hér hefur verið sagt þá er þetta að mörgu leyti töluvert ólíkt en að sama skapi er líka mjög margt líkt. Marga þætti er hægt að sameina en ekki endilega heilu stofnanirnar.

Það er sagt að byggðaáætlun sé eitt tæki stjórnvalda til að jafna atvinnuskilyrði og bæta samkeppnishæfni. Þar á Nýsköpunarmiðstöðin að koma að byggðarannsóknum. Þetta hefur verið hlutverk Byggðastofnunar og eitt af því sem hefur átt að gera er að kanna, eins og síðar kemur fram, hvernig þetta hefur gengið og fara ofan í að greina svæði og greina bæði flutninga og brottflutninga, atvinnu og annað því um líkt, þróun búsetuskilyrða og atvinnulífs. Það hefur ekki verið gert nema að mjög litlu leyti og það er alltaf líka spurning, af því Byggðastofnun tengist landsbyggðinni órjúfanlega, þá veltir maður því alltaf fyrir sér hvað hefur gerst. Það er búið að rannsaka margt og margar skýrslur sem liggja fyrir en það hefur ekki breytt því að þróunin er samt sem áður sú að fólk er enn að flytja til höfuðborgarsvæðisins. Ég er alls ekki á móti því og tel mjög gott að það sé að því hugað að einfalda það kerfi sem snýr að nýsköpun og fjármögnun og öðru því um líku. En mér finnst þetta samt sem áður ekki vera nákvæmlega rétt nálgun.

Yfirlýsingar frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem sitja í iðnaðarnefnd hafa verið á þann veg að þeir séu mjög mótfallnir þessu. Þannig að einhvers staðar steytir á. Ég tel líka að ekki verði eins auðvelt fyrir lítil fyrirtæki eða einstaklinga sem eru að fara af stað með einhverjar hugmyndir að komast í þessar lánsábyrgðir. Það hefur gjarnan verið þannig að lánastofnanir eru ekki mjög tiltækar þegar kemur að því að lána fé í rekstur úti á landsbyggðinni þar sem þeim þykir ábyrgðin ekki nægjanleg og ef ríkið ætlar einungis að ábyrgjast hluta, eins og hér hefur einhvers staðar komið fram, getur það reynst þeim fjötur um fót að verða sér úti um það viðbótarfjármagn sem þarf til að koma viðskiptahugmynd á koppinn. Enda kemur hér líka fram að í sjálfu sér er ekki búið að útfæra þessa lánsábyrgðarhugmynd.

Það er líka áhugavert að lesa skýrslu Byggðastofnunar. Þeirra tillögur í byggðastefnunni eru að færa frumkvæði, framtak og fjármagn út á landsbyggðina, að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft en vera ekki einungis þiggjendur úr stórri stofnun.

Í þessari skýrslu Byggðastofnunar kemur líka fram að hún hefur oft viðrað hugmynd um stofnsetningu sérstakra þróunarsetra á landsbyggðinni, sem byggja á klasamyndun atvinnuþróunarfélaga, háskóla og rannsóknarstofnana atvinnuveganna, til að efla félagslegar forsendur búsetu á landsbyggðinni, veita atvinnuráðgjöf og aðstoða við stofnun nýrra fyrirtækja, auka rannsóknar- og þróunarstarf á landsbyggðinni og tengja það rannsóknar- og þróunarstarfi á höfuðborgarsvæðinu, og veita fjármagn til rannsókna og nýsköpunar.

Þessar hugmyndir eru allar til og maður veltir því fyrir sér hvers vegna hola þarf þessu öllu niður í eina stóra stofnun. Miklu frekar ætti að leggja áherslu á hugmyndir Byggðastofnunar um samstarf við heimamenn til að finna þessar nýju atvinnugreinar sem eru til og laða fyrirtæki til sinna staða fyrir utan náttúrlega stefnu stjórnvalda í byggðamálum sem hefur ekki heldur verið fylgt eftir, að flytja störf út á land.

Ég tel að þessum afskiptu stöðum og þessum litlu stöðum sem eru alltaf að reyna að draga til sín fólk og fé verði ekki gert auðveldara að nálgast þekkingu eða fjármagn, sérstaklega fjármagn, til að koma á starfsemi í sinni heimabyggð. En ég tek enn og aftur fram að vissulega þarf að gera eitthvað í starfsemi Byggðastofnunar og fyrst og fremst þarf að tryggja henni fé þannig að hennar eigið fé verði áfram fyrir ofan 8%. Það leysir ekki vanda hennar að setja hana inn í eina stóra Nýsköpunarmiðstöð.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Það er hægt að fara út um víðan völl þar sem þetta mál tengist mjög mörgu. Ég get þá komið hér upp aftur þar sem næsta mál á dagskrá tengist þessu töluvert. Læt ég þetta duga í bili.