132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:19]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kallar eftir stuðningi við þetta mál. Því miður held ég að það sé ekki hægt, þó að allir, eins og hún orðar það, séu að verða sammála um það eftir kynningu. Mér hefur ekki heyrst svo. Mér hefur heyrst að margir í samstarfsflokknum, Sjálfstæðisflokknum, séu nú ekki par hrifnir af þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Við skulum sjá hvort tekst að snúa upp á handleggina á þeim. Við eigum vonandi eftir að heyra í einhverjum á eftir, vegna þess að væntanlega er það svo, virðulegi forseti, að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, almennir þingmenn, ætla ekki að skila auðu við þessa umræðu.

Virðulegi forseti. Hér er mikið rætt um þekkingarsetur. Það er gott og góðra gjalda vert sem gert hefur verið þar en ég minnist þess að menn þurftu að ganga á milli Heródusar og Pílatusar við að tryggja rekstur t.d. þekkingarseturs Þingeyinga á Húsavík rétt fyrir jól. Það gekk mjög erfiðlega og það var bara rétt á síðustu metrunum sem það var rétt við. (Gripið fram í.) Ég veit að ef ráðherra getur komið upp á eftir mun hún örugglega koma og berja sér á brjóst og segja: Ég reddaði þeim þáttum á síðustu stundu. Vafalaust er það svo.

Það sem ég kvartaði yfir, virðulegi forseti, og skil ekki alveg er, eins og kom fram í andsvari mínu, hvað eiga verkefni núverandi Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, skv. 53. gr. laga um þá stofnun, eins og það að vinna að hagnýtum jarðfræðirannsóknum, kynna niðurstöður rannsókna og veita upplýsingar um byggingafræðileg efni, aðstoða við eftirlit með byggingaefnum og byggingaframkvæmdum — með öðrum orðum að rannsaka brotþol steinsteypu eða veðrunarþol steinsteypu — hvað eiga þau skylt við stofnun sem á líka að fjalla um byggðamál? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það þarf einstaka sinnum að rannsaka brotþol steypu á landsbyggðinni. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, þess þarf annað slagið. En það sem verst er og ég kvarta yfir, og það er engin þröngsýni í því, hér verið að kasta rekum á Byggðastofnun, á byggðaáætlun. Hér þarf hæstv. ráðherra hvorki að leggja fram byggðaáætlun, með þeim óþægindum (Forseti hringir.) sem því fylgir fyrir hæstv. ráðherra, né að nota „copy/paste“ til að búa til skýrslur sem löngu hafa verið fluttar áður.