132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:42]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa sérstakri gleði yfir því hve hv. þingmaður var ánægður með stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum eins og kom skýrt fram í máli hans. Stefna Framsóknarflokksins og stefna ríkisstjórnarinnar kemur fram í þessu frumvarpi. Það er rétt að taka það fram að þetta er stjórnarfrumvarp og er lagt fram sem slíkt og felur þess vegna í sér stefnu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Það sem vekur hins vegar athygli, hæstv. forseti, er að nú hafa þegar þrír hv. þingmenn Samfylkingarinnar talað. Það verður að segjast eins og er að þeir hafa meira og minna talað út og suður og hver í sína áttina og í engu innbyrðis samræmi. Þess vegna hlýtur maður að spyrja, hæstv. forseti: Hver er stefna Samfylkingarinnar í byggðamálum?