132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrst taka fram að ég var sérstaklega að lýsa yfir ánægju minni með velvilja Framsóknar í byggðamálum. Kannski ekki stefnuna enda hefur hún beðið hálfgert skipbrot. (Gripið fram í: Þú talaðir um stefnuna.) Ég sagði hér áðan að við stæðum að mörgu leyti yfir brunarústum byggðastefnu stjórnvalda með þessu frumvarpi hér í dag.

Ég hef hins vegar aldrei efast um heilindi Framsóknar í byggðamálum. Þó að flokkurinn hafi villst af leið og haldi úti nokkuð úreltri og óuppfærðri byggðastefnu hef ég aldrei efast um heilindin og pólitískan vilja Framsóknar til að efla byggðirnar. Það er öndvert við Sjálfstæðisflokkinn sem hefur mjög ótrúverðuga stefnu eða enga í byggðamálum og kom best fram í þeirri algeru sýndarmennsku sem átti sér stað fyrir nokkrum dögum þegar nokkrir þeirra þóttust leiða hér mikla uppreisn gegn byggðamálaráðherra, uppreisn sem koðnaði svo niður í að verða ekki neitt.

Stefna Samfylkingar í byggðamálum er að sjálfsögðu mjög umfangsmikil og liggur allri annarri stefnumörkun okkar til grundvallar. Hana er t.d. að finna í menntastefnu Samfylkingarinnar. Við viljum efla háskólamenntun úti á landi, efla háskólamenntun úti í héraði. Við viljum ráðast í sérstakt fjárfestingarátak í háskólamenntun úti á landi, úti í hinum dreifðu byggðum. Við viljum hjálpa þessum svæðum til bjargálna með þessum hætti sem er þvert gegn viljaleysi stjórnvalda sem hafa hafnað því ítrekað að greiða t.d. fyrir háskólanám í þeim þekkingarsetrum og menntastofnunum sem ég nefndi hér áðan. Við viljum einnig efla sveitarstjórnarstigið verulega. Færa aukin verkefni til sveitarfélaganna og hleypa þannig lífi í margar byggðir landsins. Í þriðja lagi viljum við ráðast í samgönguátak til að efla og nútímavæða samgöngur um landið.