132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:55]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svona kortagerð er voða skemmtileg og skiptir miklu máli.

Hv. þingmaður mætti nú láta það nægja að tala fyrir sjálfan sig og sleppa því að leggja mér það til að ég hafi verið að tala eitthvað sérstaklega gegn virkjunum og stóriðju. Ég var að sjálfsögðu ekki að tala neitt um það. Ég sagði að í forgangsröðun sinni væru sveitarstjórnirnar í dag á þessum jaðarsvæðum, þessum vaxtarsvæðum sem liggja í 50–100 km radíus út frá Reykjavík sérstaklega að kalla eftir þremur hlutum: Aukinni háskólamenntun, betri og bættari samgöngum og í þriðja lagi stærri, sterkari og öflugri sveitarfélögum. Það var þetta sem ég sagði. Ég sagði að þetta væri efst á listanum í stað þess að umræðan hverfðist eingöngu um stóriðju og virkjanir. Það eru bara staðreyndir málsins. Það er ekki það sem hin pólitíska umræða snýst um á þessum svæðum.

Álverið sem um er að ræða í Helguvík er m.a. viðbragð Sjálfstæðisflokksins — sem brást nú heldur betur bogalistin í varnarmálunum — við því að nú algjörlega að óvörum er herinn að fara. Það viðbragð líst mér alveg ágætlega á. Ég held að það hafi komið vel til greina í þeirri atvinnuuppbyggingu sem á að ráðast í á Suðurnesjunum til að bæta atvinnuástandið þar við brottför varnarliðsins og stjórnvöld brugðust íbúum þar algjörlega með því að sofa á verðinum, láta sem ekkert væri og reyna svo að láta líta út fyrir að ekkert væri að gerast, enginn her að fara og ekkert þyrfti að gera, engin aðgerðaáætlun í gangi.

Jú, jú, það er sjálfsagt að bregðast við því t.d. með að skoða álversframkvæmdir, það er alveg sjálfsagt mál. En í almennu og stærra samhengi er það ekki það sem aðrar byggðir á hinum jaðarsvæðunum eru að kalla eftir sem mikilvægustu þáttunum í eflingu byggða á svæðunum.