132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:58]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun á þskj. 1067, mál nr. 731. Mjög áhugaverð umræða hefur verið um málið hingað til og verður án efa fram á kvöld, enda um afar áhugavert frumvarp að ræða. Verið er að leggja til að stofnuð verði Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem muni heyra undir ráðuneyti iðnaðarins.

Virðulegi forseti. Mér þykir þetta áhugavert frumvarp vegna þess að í því er kveðið á um býsna spennandi leiðir, að sameina stofnanir sem fara með tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun undir eina stofnun, þ.e. stofnanir sem heyra undir iðnaðarráðuneytið. Það finnst mér afar áhugavert en ég hefði viljað sjá að gengið yrði lengra í þeim efnum, að fleiri stofnanir sem fara með atvinnuþróun yrðu settar inn í slíka nýsköpunarmiðstöð og þar á ég við stofnanir sem heyra undir önnur ráðuneyti en ráðuneyti iðnaðarins.

Virðulegi forseti. Það sem mér þykir sérkennilegt er hvernig byggðamálunum er hálfþvælt inn í þetta góða mál. Það vekur dálitla undrun mína og er augljóst af lestri frumvarpsins, ekki síst greinargerðarinnar, hvernig hugmyndir um að skella Byggðastofnun inn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafa í rauninni fallið af himnum ofan á einhverju stigi. Ég verð að segja, frú forseti, að byggðamálin hafa verið hornreka hjá ríkisstjórninni hingað til og mér finnst sú ráðstöfun, samkvæmt frumvarpinu, að setja Byggðastofnun inn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands endurspegla það. Það finnst mér endurspegla að byggðamálin hafi verið hornreka.

Virðulegi forseti. Á bls. 9–11 í frumvarpinu er farið ágætlega yfir aðdraganda þess hvernig frumvarpið er til komið. Það er alveg augljóst af lestri greinargerðarinnar að í ferli með allt önnur markmið en styrkingu byggða í landinu er eins og menn hafi fengið einhverju hugdettu sem ekki hefur verið hugsuð alveg til enda. Þetta virðist vera einhvers konar redding af því að ráðherrann virðist alls ekki hafa ráðið við Byggðastofnun eða þann málaflokk sem flokkast undir byggðamál.

Frú forseti. Eftir að hafa lesið greinargerðina og sérstaklega aðdragandann þá þykir mér margt þar til fyrirmyndar ef stofna á nýsköpunarmiðstöð en það er ekki til fyrirmyndar hvernig byggðamálin allt í einu detta inn í þá vinnu og það ferli. Það finnst mér alls ekki til fyrirmyndar vegna þess að í aðdragandanum eru skipaðar tvær nefndir þar sem engir úr byggðamálageiranum innan stjórnsýslunnar koma að, heldur eingöngu fulltrúar Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Að mínu mati er margt sem bendir til þess að skynsamlegt sé að sameina þær stofnanir undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að ákvörðun um að setja Byggðastofnun inn í slíka nýsköpunarmiðstöð — en undirbúningurinn hefur í rauninni miðað að allt öðru en að styrkja byggðir í landinu — hefði átt að koma í kjölfarið á markvissri stefnumótun í byggðamálum en ekki af himnum ofan meðan iðnaðarnefnd er enn og eiginlega rétt á upphafsstigum að fjalla um byggðaáætlun til fjögurra ára. Mér finnst þetta mál og aðdragandinn allur hinn undarlegasti og sérstaklega vegna þess að þeim mikilvæga málaflokki sem hefur verið hornreka í tíð ríkisstjórnarinnar skuli vera skellt inn í annars ágætt mál, ég vil taka það fram, annars ágætt mál um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Mér finnst byggðamálin og Byggðastofnun og þau mál ekki eiga heima inni í þessu frumvarpi eins og staðan er nú. Frumvarpið er mjög gott að því leyti til er lýtur að uppbyggingu nýsköpunar í landinu og stuðningi við atvinnuþróun. En hver einasti maður sem les frumvarpið getur séð og það mjög glögglega að hér hefur einhvers konar „copy/paste“ vinna átt sér stað þar sem Byggðastofnun er skellt inn, sérstaklega í greinargerðina og lagagreinina, án samhengis við aðra þætti. Það finnst mér mjög slæmt.

Virðulegi forseti. Á bls. 12 og 13 er IV. kafli sem heitir: Samkeppnisstaða atvinnulífsins, sameining tæknirannsókna. Í þeim kafla eru færð mjög fín rök fyrir sameiningu á rannsóknarstarfsemi Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins en þar er ekki minnst einu orði á byggðamál eða Byggðastofnun, ekki einu orði, enda hefði það komið eins og skrattinn úr sauðarleggnum þar inn. Ég er því mjög efins um að þetta hefði átt að taka saman á þennan hátt og mér finnst það ekki vel gert hvernig reynt er að flétta Byggðastofnun inn í þetta ágæta frumvarp um Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Ég sagði það mína skoðun áðan, frú forseti, að sameina eigi stofnanir sem hafa með atvinnuþróun og nýsköpun að gera í landinu. Ég sagði líka að það væri skoðun mín að ég hefði jafnvel viljað sjá að hér væri gengið lengra í því og stofnanir sem heyri undir önnur ráðuneyti væru líka undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Atvinnumál og þróun þeirra hefur að mínu mati liðið fyrir þá skiptingu ráðuneyta sem við erum með nú, þ.e. þau verkefni sem ráðuneytin hafa með höndum. Mér hefur fundist þessi verkaskipting mjög gamaldags svo vægt sé til orða tekið. Atvinnumálin heyra undir fimm ráðuneyti. Þau heyra undir sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, viðskiptaráðuneyti og samgönguráðuneyti. Við í Samfylkingunni höfum talið að búa ætti til eitt atvinnuvegaráðuneyti sem hefði þá heildarsýn yfir atvinnuþróun í landinu og undir slíku ráðuneyti ætti Nýsköpunarmiðstöð Íslands vel heima, enda kæmu fleiri stofnanir núverandi ráðuneyta inn í hana til að þetta skili sem bestum árangri.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hefur mér þótt það afar gamaldags hvernig skipting ráðuneytanna er sem fara með atvinnumálin. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu eru atvinnuhættir afar breyttir hér á landi og við þurfum að fara að gera sprotafyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum og hátæknifyrirtækjum hærra undir höfði. Þessi angi atvinnulífsins hefur liðið fyrir það að við skulum skipta ráðuneytunum á þennan hátt. Slík fyrirtæki hafa ekki átt beint sameiginlegt athvarf innan stjórnkerfisins af því að nýsköpunar- og sprotafyrirtæki þurfa sérstakar aðgerðir á meðan þau eru að byggjast upp. Það tekur allt að 10–15 ár þar til þau hafa náð markmiðum sínum eða búið til afurð sem er söluvæn. Því hefði ég talið að þetta væri sú átt sem við ættum að fara í. Þegar ég heyrði af frumvarpinu fyrst leist mér svo á að hæstv. ráðherra væri að stíga einhver skref í slíka átt innan þess ramma sem hún hefur tök á, þ.e. að sameina stofnanir í ráðuneyti sínu. Þess vegna er mér algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna þeim viðkvæma málaflokki, byggðamálunum, eigi að þvæla inn í þetta mál. Ég tel byggðamálin ekki eins og sakir standa, hugsanlega í framtíðinni, eiga heima þarna undir vegna þess að byggðir landsins þurfa sértækar aðgerðir á meðan nýsköpunar- og sprotafyrirtæki þurfa almennari stuðning og því er maður hræddur við að upp geti komið innbyrðis mótsagnir við starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar sem veikja markmiðin með starfseminni, veikja stuðninginn við nýsköpun, rannsóknir og sprotafyrirtæki annars vegar sem síðan veikja byggðaþáttinn. Það er það sem kemur strax upp vegna þess að slíkir þættir þyrftu mismunandi stuðning. Ég tel ekki að byggðamálin geti að svo komnu máli fallið undir almennan stuðning við fyrirtæki í landinu, nýsköpunar- og sprotafyrirtæki, heldur verði að grípa til sértækra aðgerða. Því hefði ég viljað sjá, virðulegi forseti, að sá málaflokkur verði styrktur en hann yrði ekki samþættur, eða eins og það er ágætlega orðað af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, að byggðamálunum væri komið fyrir í kofa við höllina sem mætti kalla nýsköpunarmiðstöð.

Virðulegi forseti. Byggðamálin eru loðin fyrir. Við vitum að í þeim verkefnum og þeim byggðaáætlunum sem lagðar hafa verið fyrir þingið hafa verið býsna loðin markmið. Þessi málaflokkur hefur verið hornreka hjá ríkisstjórninni en með þessu tel ég að ástandið verði enn verra. Það sem þarf fyrir byggðirnar og uppbyggingu þeirra og verkefni sem tengjast byggðunum er skýr rammi um verkefnin og skýr markmið, utanumhald og ekki síst skilvirka eftirfylgni þannig að þau verkefni skili árangri. Upp á þetta hefur verulega vantað. Mér finnst sú þingsályktunartillaga um byggðaáætlun til fjögurra ára sem liggur fyrir þinginu endurspegla þetta vegna þess að þar eru sett upp verkefni með afar óljósum markmiðum og þau verkefni eru loðin, mjög loðin. Þar er heldur ekki skýrt kveðið á um hvað þau muni kosta eða hvað á að leggja til þeirra. Þetta eru fín orð á pappír en þau segja ekkert til um hver markmið ríkisstjórnarinnar eru.

Það er skoðun mín að við þurfum fyrst að fara í gegnum hvers konar byggðaáætlun við ætlum að setja til næstu fjögurra ára og klára það verkefni. Það hefur verið ágæt samstaða um það í iðnaðarnefnd að skerpa á þeim tillögum sem komu frá hæstv. ráðherra svo að um þau geti náðst góð og þverpólitísk sátt af því að byggðamálin eru þannig að um þau ætti að ríkja pólitísk sátt. En þá kemur mál sem er illa unnið, þ.e. að skella Byggðastofnun inn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Ég hefði talið að þetta hefði þurft að koma, eins og ég sagði áðan, frú forseti, í kjölfarið á stefnumótunarvinnu sem hefði skýr markmið fyrir byggðirnar í landinu en ekki sem hugdetta út af því að hæstv. ráðherra ræður ekki við málaflokkinn og hefur ekki ráðið við þessa stofnun. Og þegar svona óljós markmið eru sett, eins og við höfum séð í byggðaáætlunum frá hæstv. ráðherra á undanförnum árum og ekki síst þeirri sem nú liggur fyrir þinginu, þá er hætt við að peningar fuðri upp í málaflokknum vegna skorts á skýrum markmiðum og skilvirkri eftirfylgni því eftirfylgni er lykilorð í því sambandi ef við ætlum að ná árangri í þessum efnum.

Frú forseti. Ég vil samt ítreka, eins og ég sagði áðan, að ég styð það að stofnanir sem hafa með tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun að gera, séu sameinaðar. Ég styð það. Eins og ég sagði vil ég sjá gengið lengra í þessum efnum og til framtíðar litið verði fleiri stofnunum, sem hafa með atvinnuþróun og nýsköpun að gera, komið undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands en byggðamálin eigi ekki heima þar eins og sakir standa vegna þess að við þurfum að fara í gegnum miklu betri vinnu, miklu skilvirkari vinnu með skýrari markmiðum og að Byggðastofnun eigi ekki að setja með þessum hætti inn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk þess sem það er illa gert í frumvarpinu. Það er alveg augljóst hverjum þeim sem les frumvarpið að miðað er að því að skapa nýsköpunarmiðstöð en Byggðastofnun datt af himnum ofan á lokasprettinum. Eflaust hefur hún verið dálítið vandræðabarn í ráðuneyti hæstv. iðnaðarráðherra og því hefur það verið þægileg tilhögun að skella henni inn í þessa miðstöð án þess að hugsa það til enda. Og það er sá varhugi sem ég vil gjalda að svo komnu máli við þetta, en engu að síður geri ég ráð fyrir að við munum fjalla rækilega um málið í nefndinni, enda hafa komið fram alvarlegar athugasemdir við það af hálfu samstarfsflokks ráðherrans, Sjálfstæðisflokksins, úr þeirra röðum. Ég geri því ráð fyrir að farið verði vel yfir málið þar og að við fáum að heyra sjónarmið þeirra í málinu vegna þess að ekki eru þeir á mælendaskrá sem hafa haft hvað hæst um frumvarpið, ekki eru þeir hér. Ég geri því ráð fyrir að þeir muni reifa sjónarmið sín í nefndinni þó svo að eðlilegra hefði verið fyrir okkur að fá merki og fá að vita hver sjónarmið þeirra raunverulega eru, af því að þau eru misjöfn, áður en nefndin tekur til starfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu og ítreka það sem ég sagði. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Jóhann Ársælsson reifaði, af því að hér hefur verið kallað eftir því hvaða afstöðu Samfylkingin hafi, að varhugavert væri að setja Byggðastofnun inn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það hefði þurft að koma miklu betur að því máli í kjölfarið á stefnumótunarvinnu.