132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[18:18]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í andsvar — ég hef ekki lent í því áður og kallaði þó mikið eftir því í umræðunni um vatnalög að hún ræddi þau mál við okkur. Ég hlýt því að fagna því að hún komi hér upp og ræði málin við okkur.

Hæstv. ráðherra hefur ekki hlustað nægilega vel á mig. Ég sagði að þegar kæmi að byggðamálum þyrfti að grípa til sértækra aðgerða en þess þyrfti ekki hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum með sama hætti. Sértækar aðgerðir — t.d. hefur mikið verið fjallað um flutningsmálin sem íhaldið hefur stoppað í ríkisstjórn og hæstv. ráðherra þekkir vel, enda hefur hún gefist upp á að halda því máli til streitu. Það er eitt dæmi.

Byggðamál, frú forseti, það er von að hæstv. ráðherra spyrji hvað byggðamál séu vegna þess að hún hefur ekki náð utan um þann málaflokk frá því að hún tók við honum. Það er ekki nema von að hún spyrji hvað byggðamál séu.

Virðulegi forseti. Byggðamál eru nefnilega svo margt annað en það sem fram kemur í þessu frumvarpi. Byggðamál eru menningarmál, byggðamál eru menntamál, byggðamál eru samgöngumál og þá sýn skortir algerlega í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Atvinnumál eru einn þáttur. Þau eru menningarmál, þau eru menntamál, þau eru samgöngumál og það er alveg augljóst á aðgerðum þessarar ríkisstjórnar að ríkisstjórnin áttar sig ekki á því. Þetta snýst um lífsgæði og lífsgæðin eru meira en atvinnumál. Þau eru líka menningarmál og þau eru ekki síst menntamál og samgöngumál skipta þar líka miklu máli. Þetta þarf að samþætta til að byggðastefna geti haldist til framtíðar.