132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[18:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hv. þingmaður vill setja byggðamál í eitthvert hólf. Hún vill ekki tengja nýsköpun í atvinnulífinu við byggðamál. Það er það sem þetta mál snýst um. Við sjáum að það eru nýjungar sem þarf á landsbyggðinni. Það verður ekki bara haldið áfram með sjávarútveg og landbúnað ef hv. þingmaður heldur það. Það þarf nýjungar og þess vegna er það sem við viljum tengja byggðamálin við einmitt tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Út á það gengur þetta mál og það gengur út á að efla landsbyggðina á sviði háskólakennslu og þekkingarsetra. Ef hv. þingmaður er ekki búin að átta sig á því er kominn tími til að hún geri það.

Hv. þingmaður hefur haft mörg orð um það að ég standi mig illa í sambandi við byggðamál en einhverra hluta vegna hefur orðið viðsnúningur á landsbyggðinni á síðustu árum. Það hefur orðið viðsnúningur þannig að fólki líkar orðið betur að búa þar og það sér þar miklu fleiri tækifæri en áður. Það er einhver sú ánægjulegasta þróun sem hefur orðið í landinu á síðustu árum, þ.e. hvernig landsbyggðin hefur eflst.