132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[18:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér ræðum við afar mikilvæg mál, nýsköpun og byggðaþróun og Byggðastofnun. Ég heyrði fyrst af þessu máli, og það kom mér mjög á óvart, á forsíðu Fréttablaðsins. Ég var strax jákvæður í garð þessa máls, taldi að það gæti orðið til góðs að framsóknarmenn væru að vakna til vitundar um að taka þyrfti til hendinni í byggðamálum, og ekki síst þegar fréttist af því að höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar ættu að vera á Sauðárkróki þar sem Byggðastofnun er nú.

Ég fór því með mikilli bjartsýni og jákvæðni í gegnum þetta mál. En þegar betur er að gáð fer maður að velta því fyrir sér hvað þessir málaflokkar eigi sameiginlegt. Þarna er t.d. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem hefur með ýmsa staðla að gera og rannsóknir á húsum og prófanir, og síðan byggðamálin. Það er kannski ekki augljóst. Þegar tilurð málsins er skoðuð virðist ástæðan enda helst hafa verið sú að menn hafi verið í vandræðum með Byggðastofnun og ekkert vitað hvað þeir áttu að gera við hana. Þeir hafi því skellt henni inn í eitthvað annað til þess eins að þurfa ekki að ræða vandann. Sá er kannski meginkjarni þessa máls að hugmyndirnar eru ekki fullburða.

Í sjálfu sér hefði verið allt í lagi að ræða þetta, að fara í gegnum það t.d. hvort tengja ætti að einhverju marki Byggðasjóð, nýsköpun og margt fleira en það er mjög einkennilegt að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sé þarna inni. Það hefur raunar ekkert verið skýrt hvaða erindi sú stofnun á þarna. Þegar farið er að kafa ofan í þetta mál þá er það einhvern veginn ekkert mjög ígrundað.

Ég var ekki síst jákvæður í upphafi í garð þessa máls vegna þess að það fréttist að margir sjálfstæðismenn væru mjög andsnúnir því. Ég taldi það jafnvel góðs viti vegna þess að sá tónn heyrðist frá ungum sjálfstæðismönnum sem eru andsnúnir því að farið sé út í einhverjar byggðaaðgerðir yfir höfuð, eru andsnúnir Byggðastofnun og álíta að sú 20 manna stofnun sé í rauninni uppspretta allrar eyðslu- og útgjaldagleði ríkisins. Það er af og frá. Byggðastofnun er afar lítil stofnun og ef horft er til þess hvernig aðrar ríkisstofnanir hafa þanist út þá er ólíku saman að jafna. En Byggðastofnun er alltaf litin hornauga, ekki veit ég hvers vegna. Það kemur mér því á óvart að þessir hv. þingmenn skuli ekki mæta til leiks og ræða þetta frumvarp sem þeir hafa þó tjáð sig um í fjölmiðlum að sé til óþurftar.

Við lestur frumvarpsins kemur í ljós að þessari nýju stofnun er ekki ætlað að vera á Sauðárkróki. Það kemur hvergi fram þó svo það hafi verið gefið í skyn og margir í Skagafirði trúi því jafnvel og það kemur ekkert fram að tengsl eigi að vera við þær menntastofnanir sem þar eru. En byggðamál eru alvörumál sem við ættum að ræða af fullum þunga og leggja kraft í. Þau snúast um það hvernig við sjáum Ísland framtíðarinnar fyrir okkur. Það er eins og sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum ætli ekkert að gera. Þetta er í rauninni mjög alvarlegt því að í þessu frumvarpi er ekki að sjá að hugsað hafi verið fyrir því að Byggðastofnun eigi að lenda þarna inni. Það er eins og þetta hafi verið samtíningur til að redda þeirri stöðu sem upp var komin varðandi fjármagn Byggðastofnunar en samt á ekkert að gera. Það eiga ekki að fylgja þessu nýir fjármunir.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra flutti þetta mál spurði ég hana einfaldra spurninga um starfslokasamninga og það kom ekki til af góðu. Það kom til vegna þess að í þessu frumvarpi segir, í lokasetningu, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð umfram hugsanleg biðlaun.“

Það er talað um þetta eins og um sé að ræða einhverja smáaura.

Ef við lítum til þess hvað tveir fyrrum forstjórar Byggðastofnunar hafa fengið í biðlaun þá hefði ég kannski ekki gert svona mikið úr því að þetta sé einhver lág upphæð, alls ekki, því um tugi milljóna króna var að ræða. Og ekki nóg með það, — ég sé að hæstv. iðnaðarráðherra er að verða órótt og virðist ekki geta setið undir þessari ræðu — fráfarandi stjórnarformaður Byggðastofnunar sakaði annan þessara forstjóra sem hafði um 20 millj. í biðlaun, eða fékk í starfslokasamningi réttara sagt, um að hafa brotið af sér í starfi og það gerði hann í útvarpsviðtali og margtók til nokkur lögbrot að því er best verður séð. Við í Frjálslynda flokknum sendum afrit af þessum ásökunum til ríkislögreglustjóra og inntum hann síðan eftir hverjar lyktir þess máls hefðu orðið. Þá kemur fram í svari ríkislögreglustjóra að hann sé í rauninni að bíða eftir því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra svari erindi sem ríkislögreglustjóri sendi til hæstv. ráðherra. Mér finnst þess vegna lokasetning þessa frumvarps vera frekar léttvæg miðað við þann gríðarlega kostnað sem hefur orðið áður vegna starfsloka forstjóra.

Nú er verið að sameina þrjár stofnanir í eina og það er nokkuð víst að einhverjir fá starfslokasamning. Þeir tveir sem höfðu stýrt Byggðastofnun, annar ekki nema í eitt og hálft ár, sá hinn síðari sem hafði unnið í eitt og hálft ár fékk um 20 millj. kr. þannig að það má ekki gera lítið úr þessu. En ég ætla ekki að gera þetta að aðalefni ræðu minnar þó svo mér finnist í rauninni miður að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki svarað mér í andsvörum fyrr í dag og e.t.v. er það vegna þess að hún hefur einfaldlega svo vondan málstað að verja að hún telji betra að láta þögnina verða svarið og reyni að forða sér frá umræðunni um þetta mál eða ég veit ekki hvað en þetta er alla vega mjög viðkvæmt mál enda hlýtur það að vera svo. En við megum ekki gera lítið úr því.

Það sem ég ætlaði að ræða er að það er engin lausn að setja Byggðastofnun inn í einhverjar jafnvel óskyldar stofnanir og ætla síðan að láta vanda byggðanna leysast af sjálfu sér við það eitt. Þó koma þarna fram nýjar hugmyndir sem ég er í sjálfu sér opinn fyrir svo sem eins og starfrækslu Byggðasjóðs.

En það er margt sem vekur spurningar hvað varðar starfrækslu þessa nýja ábyrgðasjóðs. Það er t.d. hvernig fyrirtæki verða valin til þess að fá ábyrgð vegna þess að það er auðsýnt að það mun verða mjög mikil ásókn fyrirtækja í að fá ríkisábyrgð. Hvernig mun þá Byggðastofnun eða Byggðasjóður hinn nýi velja þau fyrirtæki úr sem eiga að fá þessa ríkisábyrgð og hvaða fyrirtæki eiga ekki að fá hana? Þetta er mjög mikilvæg spurning sérstaklega í ljósi þess að raunin hefur orðið sú að vextir Byggðastofnunar hafa verið heldur hærri en þeir sem bankakerfið hefur upp á að bjóða og staðan hefur orðið sú að Byggðastofnun hefur setið uppi með fyrirtæki sem bankarnir hafa ekki treyst sér til að lána og hafa ekki haft ábyrgðir sem bankarnir hafa kært sig um og þess vegna er staða Byggðastofnunar slæm, ekki vegna þess að endilega hafi verið illa vandað þar heldur vegna þess að Byggðastofnun hefur setið eftir með verri lántakendur. Það hefur oftar en ekki komið að því að ýmsar stjórnvaldsaðgerðir hafa orðið til þess að fyrirtæki í sjávarbyggðum og víðar standa illa og hafa misst fiskveiðiheimildir. Þess vegna hefur Byggðastofnun hlaupið undir bagga. Sama má segja um að Byggðastofnun hefur setið uppi með það að lána til ferðamálafyrirtækja, ferðaþjóna og fleiri aðila sem bankastofnanir sem hafa talið að væru með ótryggt veð. En það er ekki ásættanlegt fyrir þjóðfélagið að ekki verði rekin ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni. Það eiga allir að sjá að það er einmitt mjög mikilvægt að rjúfa þann vítahring sem víða er á landsbyggðinni, það þarf að stofna ferðaþjónustufyrirtæki til að fá ferðamenn og til að það sé hægt að reisa slík fyrirtæki, þá þurfa að vera ferðamenn. Það þarf einhvern veginn að rjúfa þennan hring þannig að það séu reist hótel og aðstaða fyrir ferðamenn sem kannski ber sig ekki í byrjun en er örugglega þjóðhagslega hagkvæmt að komi á staðinn.

Ég vil nefna dæmi eins og sunnanverða Vestfirði sem er einn fallegasti staður landsins. Það þjónar heildarhagsmunum þjóðarinnar að þar séu reist mannvirki til að taka á móti ferðamönnum, að dreifa þeim um landið. Þar gæti Byggðastofnun einmitt komið til. En það er vert að fara yfir fleira og ég staldraði við það í andsvörum hjá hæstv. iðnaðarráðherra að það er uppgjöf, mjög mikil uppgjöf. Það verða engin ný störf í sjávarútvegi. Það er eins og þetta sé uppgjöf gagnvart því að gera nýja hluti í sjávarútvegi. Þessu erum við í Frjálslynda flokknum algerlega ósammála. Við sjáum einmitt tækifæri í sjávarútveginum en þá þarf kerfið auðvitað að vera með þeim hætti að nýliðum sé gert kleift að byrja í greininni. Það er athyglisvert að í athugasemd með frumvarpinu virðist þetta viðhorf koma að einhverju leyti fram en þar segir, með leyfi forseta:

„Samdráttur hefur verið í sjávarútvegi og landbúnaði en uppbygging þekkingargreina hefur aðallega verið á höfuðborgarsvæðinu og ekki nýst landsbyggðinni að sama skapi.“

Ég er á því að með því að gera öllum jafnt undir höfði til að stunda sjávarútveg þá getum við fengið fram nýsköpun í greininni og þá gætu nýliðar komist inn í greinina. Einn liðurinn í því er sá að fiskur fari á markað þannig að þeir sem vilji geti verkað fisk með sem hagkvæmustum hætti. Það er svo einkennilegt að sjálfstæðismenn sem stundum telja sig markaðshyggjumenn eru alveg á móti þessu, alveg, og sérstaklega hv. þm. Pétur H. Blöndal ef ég man rétt en hann leiðréttir mig ef mig misminnir. En svo koma jafnvel hv. þingmenn úr vinstri flokkum sem eru mjög til vinstri eins og Vinstri grænir, sem hafa skilning á þessu. Þetta er svo einkennilegt að ef það tengist landsbyggðinni og sjávarútvegi þá vilja sjálfstæðismenn alls ekki að markaðslögmálin ráði. Það þykir okkur í Frjálslynda flokknum mjög skrýtið, því það skortir nýliða í þennan atvinnuveg, sjávarútveginn. Þess vegna ættu menn í rauninni að horfa til þess hvað við getum gert. Eitt af því er að tryggja að menn geti komist inn í greinina. En ég er á því að það verði að horfa til fleiri þátta.

Í dag sakaði hæstv. iðnaðarráðherra hv. þingmenn um þröngsýni af því að þeir voru ekki sammála henni varðandi byggðamálin. En ég verð að vara hæstv. ráðherra við og ég er á því að hún ætti að líta í eigin barm vegna þess að álver virðast vera eina atvinnusköpunin sem hún sér tækifæri á til að stunda á landsbyggðinni. Við í Frjálslynda flokknum sjáum á hinn bóginn tækifæri í sjávarútvegi og í landbúnaði líka. En það er erfitt við að eiga þegar menn ætla að koma með nýjungar í landbúnaði, mig rekur t.d. minni til þess að einn ágætur bóndi hafi ætlað að fara í ísgerð, þá starfaði það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa komið upp og hefur kostað ómælt fé, þannig að það var ekki hægt að sjá hvernig maðurinn ætti að fá starfsleyfi fyrr en eftir marga mánuði. Er þetta ásættanlegt? Ættu menn ekki einmitt að staldra við? Það eru tækifæri í landbúnaðinum. Og það þarf að minnka þá miðstýringu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa komið á sem minnir um margt á sovéskt fyrirkomulag.

Það kemur fram á bls. 11 í þessu frumvarpi að nefnd manna úr stjórnarflokkunum, þar eru nokkrir hv. þingmenn svo sem Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson og síðan bættist enginn annar en Einar Oddur Kristjánsson í hópinn, gerði tillögu um hvernig ætti að taka á vanda Byggðastofnunar. Það er ekki að sjá að það sé í einu né neinu tekið tillit til þess í frumvarpinu.

En vandi Byggðastofnunar er ekki endilega vandi inni í stofnuninni. Þetta er vandi byggðanna sem endurspeglast í vanda þessarar stofnunar og vanda byggðanna má að miklu leyti rekja til þess hvernig Sjálfstæðisflokkurinn, sérstaklega með hjálp Framsóknarflokksins, hefur í rauninni hneppt atvinnuvegi landsbyggðarinnar í kvóta.

Fleira má nefna og vegna þess að hæstv. ráðherra hefur verið að fara yfir mál sín og viðhorf í þessu þá er mjög einkennilegt að þær breytingar sem hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir á umliðnum árum, svo sem að hækka rafmagnsverðið, eru ekki gerðar fyrir byggðirnar, alls ekki. Og til dæmis það að afrita skýrslu um byggðamál eins eða tveggja síðustu ára og koma með hana nær óbreytta inn í þingið sýnir ekki neinn metnað í þessu máli og hæstv. ráðherra hefur heldur ekki sett nein mælanleg markmið fram.

Við í Frjálslynda flokknum höfum mikinn metnað fyrir hönd byggða Íslands og við teljum að það sé skylda okkar sem erum á Alþingi að leggja fram almennilegar og veigamiklar tillögur og það gerum við m.a. í málefnahandbók flokksins þar sem við tvinnum byggðamálin inn í flest mál. Byggðamál eru ekki endilega einangruð í einni stofnun sem getur verið staðsett og verður vonandi staðsett áfram á Sauðárkróki heldur snertir hún menntamál, hún snertir atvinnuvegi landsbyggðarinnar ekki síst og samgöngur. Ég verð að segja að eftir að hafa komið með mikilli bjartsýni og jákvæðni að lestri þessa frumvarps þá hef ég orðið fyrir miklum eða talsverðum vonbrigðum, ég vil ekki segja miklum vegna þess að eftir að hafa farið í gegnum fyrri verk hæstv. ráðherra sem hafa snert byggðir landsins þá var kannski ekki við miklu að búast en þetta lýsir ekki miklum metnaði fyrir byggðir landsins, alls ekki.