132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[19:17]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta frumvarp sé eins og það hafi verið samið í Sovétríkjunum á árabilinu 1930 til 1950 þá er engum blöðum um það að fletta hvaða sögulegu persónu hv. þingmaður telur hæstv. iðnaðarráðherra gegna hlutverki fyrir hér í dag. Ég verð að játa að þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal virðist að minnsta kosti í öðru hvoru máli vera ábyrgðarlaus af stjórnar athöfnum þá er ég alveg orðinn ruglaður í ríminu í þessari umræðu.

Sovétfyrirkomulag kallar hann þessi frumvörp og þó er mér ekki annað ljóst en að um sé að ræða stjórnarfrumvarp frá ríkisstjórn Íslands og veit ekki betur en að meiri hluti ráðherra í þeirri ríkisstjórn komi úr Sjálfstæðisflokknum. Og hélt til þessa að frumvarpið hefði verið kynnt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og hann stutt að það yrði lagt fram í þinginu.

En nú upplýsir hv. þingmaður að allir fundarmenn á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins hafi mótmælt frumvarpinu. Þá hlýtur maður að spyrja: Á það líka við um ráðherrana? Því hér er nú um stjórnarfrumvarp að ræða og ég hygg að einir sjö ráðherrar sitji þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins ef mér skjöplast ekki. Eða hvernig er þessu eiginlega farið í Sjálfstæðisflokknum? Eigum við almennt að búast við að stjórnarfrumvörp sem hér koma fram séu í andstöðu við annan af stjórnarflokkunum og hafa þingflokkar þeirra ekkert um framlagningu þeirra að segja? Eða hvað býr hér að baki hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal?

Er Sjálfstæðisflokkurinn ekki sá sem stendur að flutningi þessa frumvarps og styður hann að meiri hluta til þetta sovétskipulag (Forseti hringir.) sem þingmaðurinn kallar svo?