132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[20:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vildi koma nokkrum atriðum að við 1. umr., þessa byggðamálaumræðu, sem verður að flokkast sem slík.

Í fyrsta lagi vil ég halda til haga sjónarmiðum og stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að byggðamál séu hluti af hinum almennu skilyrðum sem búsetu- og atvinnulífi er skapað um allt land. Það er fyrst og fremst á grunni hinna almennu skilyrða sem við eigum að vinna.

Þau almennu skilyrði sem ég vil leggja áherslu á eru t.d. vegagerð. Samgöngur um allt land eru hornsteinn að samkeppnishæfri byggð. Byggðastofnanir geta ekki komið í staðinn fyrir slíkt. Í fréttum í kvöld var kynnt skýrsla sem Hagfræðistofnun hafði unnið um ástand vega og hagkvæmni þess að ráðast í frekari vegaframkvæmdir. Ef ég tók rétt eftir var sagt að bæði á Vestfjörðum og Norðausturlandi, einmitt þeim landsvæðum sem mest þörf er á að skapa öflugan stuðning við byggð og búsetu, væri verulega mikil þörf á auknum vegaframkvæmdum. Fram kom að vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og Norðausturlandi hefðu dregist svo aftur úr að talið væri að samgöngur þar væru um 15 árum seinna þar á ferð en t.d. á sambærilegum landsvæðum í Noregi.

Þetta þarf svo sem ekki að segja okkur hér. Við vitum þetta. Það þarf ekki að vinna skýrslu til þess. En það fyrsta sem skorið er niður af hálfu þessarar ríkisstjórnar til að bregðast við þenslu, sem verður fyrst og fremst á suðvesturhorninu, eru vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, framlög til vega á Norðausturlandi og til vegagerðar um allt land. Þessu viljum við snúa við. Við teljum að efla þurfi stórlega vegagerð, einmitt á landsvæðum sem talið er að mest þurfi á byggða- og búsetuaðgerðum að halda. (Iðnrh.: Þetta snýst ekki um vegagerð.) Þetta snýst einmitt vegagerð, frú forseti. Þetta sýnir að hæstv. iðnaðarráðherra er á röngum vegi. Það eru verkin sem tala en ekki fjöldi stofnana.

Sama má segja um fjarskiptin. Okkur berast æ fleiri áskoranir frá íbúum og sveitarfélögum vítt og breitt um landið sem halda að það sé enn í höndum Alþingis að auka framlög til fjarskiptamála. Þar er allt stopp. Einkavæðing Íbúðalánasjóðs sem stendur nú fyrir dyrum, en afhenda á bankakerfinu Íbúðalánasjóð, verður ekki til að styrkja landsbyggðina. Síður en svo. Tilvera Íbúðalánasjóðs hefur tryggt samkeppnishæfni íbúa á landsbyggðinni til að fá lán til íbúðakaupa og byggingaframkvæmda.

Þessi grunnatriði skipta máli en ekki hvar stofnanir eru settar upp. Það eru verkin sem tala í þessu sem öðru. Meginvandi byggðamála og hæstv. ráðherra byggðamála er að halda að það sé hægt að horfa fram hjá því sem þörf er á og afsaka sig með því að setja upp stofnanir og hræra í stofnunum.

Hinn almenni grunnur um allt land er í raun forsendan fyrir samkeppnishæfri byggð og búsetu. Meðan sá grunnur er ekki tryggður af þessari ríkisstjórn skiptir ekki meginmáli hvar hún setur upp byggðastofnanir. En þá kem ég að því máli.

Það var með vissu stolti sem Byggðastofnun var flutt til Sauðárkróks á sínum tíma. Um það voru átök og skiptar skoðanir. En það var gert. Það var gert í þeirri trú að ætlunin væri að efla Byggðastofnun, að þar yrði þungamiðja Byggðastofnunar og starfsemi hennar vítt og breitt um landið ætti höfuðstöðvar, miðstöð og þunga, bæði hvað varðaði fagfólk, stjórnun og annað. En hún var ekki fyrr komin á Sauðárkrók en farið var að narta í hana, höggva úr henni og færa annað, t.d. norður á Akureyri. Akureyringar eru góðra gjalda verðir en það var farið að nota stofnunina sem slíka, búta hana niður og þjóna gæluverkefnum hæstv. iðnaðarráðherra. Einn meginvandinn núna er hve óljóst er hvernig þessi stofnun á að starfa.

Það skiptir máli hvort það á að höggva hana niður á Sauðárkróki. Hæstv. ráðherra segir tryggt að störfum verði ekki fækkað. Þetta snýst ekki bara um störf. Þetta snýst um verkefni og hvaða stöðu svona stofnun hefur þar sem hún er staðsett. Eigi að höggva Byggðastofnun enn meira niður en orðið er þá líst mér ekki á það. Í frumvarpinu er hvergi kveðið á um að hún skuli vera á Sauðárkróki. Það er sagt að það sé samkvæmt ákvörðun ráðherra. Ef það er eindreginn vilji til að hún sé á Sauðárkróki, af hverju setjum við það þá ekki í lögin? (Iðnrh.: Heldur þú að ég standi ekki við þetta?) Þó hæstv. ráðherra sé alls góðs makleg í þeim efnum þá er staðreyndin sú að hún er ekki eilíf. Þannig eru málin einfaldlega.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á tengingu við háskóla og rannsóknarstofnanir. Ég er alveg sammála því. Byggðarannsóknir, grunnrannsóknir og rannsóknir á byggðamálum og nýsköpunarmálum og öðru slíku eiga eðlilega að tengjast háskóla- og rannsóknarstarfsemi í landinu og einmitt stofnunum sem hafa slík verkefni. Minnst er á samstarf við þekkingarsetrið á Ísafirði. Reyndar finnst mér þetta allt of smátt sem sett hefur verið í gang á Ísafirði. Auðvitað átti þar að reisa og stofna formlegan háskóla sem fengi skilgreind verkefni. En engu að síður er það nefnt og sömuleiðis þekkingarsetur á Egilsstöðum og samstarf við það.

En í Skagafirði er Hólaskóli, sem hefur kannski skóla ekki hvað minnst sinnt byggðaþróunarmálum, rannsóknum sem snúa að nýsköpun í atvinnulífi úti á landsbyggðinni. Ég nefni fiskeldið og ferðaþjónustuna, hestamennskuna og hrossaræktina. Það er ekki minnst einu orði á að byggja eigi upp þessa einingu, þessa sterku einingu í Skagafirði, þar sem miðstöðin á þó að vera. Mér er spurn: Hvers vegna er ekki horft til þess að höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar verði í raun byggðar upp í Skagafirði, að þar verði stjórnsýslan og rannsóknarstarfsemi rekin í tengslum við þann háskóla sem þar er starfræktur og hefur hvað öflugast sinnt verkefnum á þessu sviði? Mér finnst gott og eðlilegt að hafa með samstarf við háskóla og þekkingarsetur um land allt en hvers vegna er þessi skóli sniðgenginn í frumvarpinu?

Ég tel að hæstv. ráðherra verði að svara miklu skýrar til um stefnu sína varðandi uppbyggingu á starfseminni í Skagafirði. Það er ekkert svar að segja að störfum verði ekki fækkað. Það er ekkert svar þegar talað er um að byggja upp stofnun, auka verkefni hennar og gera hana stærri og væntanlega öflugri og með víðfeðmara hlutverk, að þar eigi ekki að fækka störfum. Ég vil sjá að hæstv. ráðherra komi með yfirlýsingu um að þar verði starfsemin stórefld í tengslum við höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar í öflugu samstarfi við byggða- og þróunarrannsóknir við Hólaskóla.

Menn geta deilt um vegferðina og það verður í sjálfu sér skoðað í nefnd, hvort hér sé farin rétt leið. En eigi að fara í hana þá á að gera það af heilum hug.