132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:11]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta voru góð lokaorð hjá hv. þingmanni. Hann sagðist vonast til að þetta frumvarp gæti orðið leiðarljós inn í framtíðina. Það er svo sannarlega líka von mín og í raun hef ég mikla trú á því að svo sé. Ég er sannfærð um að þetta sé gott mál og er stolt af því. Vissulega hef ég orðið fyrir einhverjum vonbrigðum með að hv. þingmenn skuli ekki jafnhrifnir af málinu og ég er en það er eins og lífið er. Ég heyri hins vegar að ýmsir hv. þingmenn vilja gefa því möguleika og ég er þakklát fyrir það. Ég held líka að það sé alveg rétt afstaða.

Eins og ég sé þetta mál þá eru þarna gríðarleg sóknarfæri. Með þessu frumvarpi gerum við nákvæmlega það sem aðrar þjóðir hafa verið að gera og mætti segja að við hefðum mátt vera fyrr á ferðinni með að byggja atvinnustefnu að verulegu leyti á þekkingariðnaði, með því að tengja saman háskólastarf, rannsóknir og starfsemi fyrirtækja í svokölluðum þekkingarsetrum.

Ég heyri að nokkuð miklar efasemdir eru um að rétt sé að blanda Byggðastofnun inn í þetta. Það er einmitt hið sama og þjóðir sem við höfum horft til hafa verið að gera. Þetta gera meira að segja Norðmenn, Innovasjon Norge er með byggðamál inni í sinni stofnun. Ég veit ekki um margar þjóðir sem leggja meiri áherslu á byggðamál en einmitt Norðmenn. Engu að síður er það með þessum hætti. Það er vegna þess að þessar þjóðir líta ekki á byggðamálin sem einangraðan málaflokk. Auðvitað þurfa byggðamál á því að halda að tengjast nýjungum og atvinnuþróunarstefnu eins og ég fór ég yfir áðan. Ég tel að við séum hér á réttri leið. Það má tala um fagurt orðalag og reyna að gera lítið úr því en það er staðreynd að þetta er hugsað þannig að þetta verði til að efla okkur til framtíðar sem þjóð og ekki síður landsbyggðina.

Hv. þingmaður Einar Oddur talaði um það að byggðastefnan væri pólitík. Ég er innilega sammála honum um það. Byggðastefna er pólitík og heyrir undir pólitískan ráðherra, sem er iðnaðar- og viðskiptaráðherra eins og við höfum skipað málum núna síðan 1. janúar árið 2000. Við höfum með þessu frumvarpi reynt að skerpa skilin. Eins og komið hefur fram fer stefnumótunin fyrir málaflokkinn fram í Vísinda- og nýsköpunarráði. Þar sitja ráðherrar, ekki bara einn ráðherra, ekki bara iðnaðar- og viðskiptaráðherra ef það er kannski ákveðið vandamál að hann hafi of mikil völd í þessum efnum, heldur fleiri ráðherrar. Þar er þessi stefna mótuð.

Hv. þingmaður hafði ekki svo mikið álit á embættismönnum og taldi að þeir ættu ekki að koma svo mikið að málum. Ég er ekki að öllu leyti sammála því. Ég tel að þegar stefnan hefur verið mótuð þá sé það hlutverk þeirra að starfa samkvæmt þeirri stefnu. Þegar við tölum t.d. um úthlutanir úr samkeppnissjóðum þá eru það að sjálfsögðu ekki pólitískar ákvarðanir sem þar fara fram heldur ákvarðanir sem teknar á faglegum forsendum og með fagleg sjónarmið í huga. Þar koma embættismenn að þótt stjórnmálamennirnir móti meginstefnuna.

Ég er ánægð með það hvað hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson var opinn fyrir því að skoða þessi mál í þaula. Hann segir, og það er mikið rétt, að það sé atvinnustigið sem skipti máli og þá erum við að tala um landsbyggðina. Einmitt það er mér í huga þegar ég tala fyrir þessu máli. Ég tel að við þurfum nýjungar á landsbyggðinni til að skapa þar störf og skapa þar betri skilyrði til framtíðar.

Hv. þingmaður spurði hvernig ábyrgðirnar yrðu veittar. Í frumvarpinu er kafli um það, með leyfi forseta:

„Lánsábyrgð er almennt veitt þannig að fyrirtæki leitar eftir þjónustu fjármálafyrirtækis, venjulega viðskiptabanka. Meti fjármálafyrirtækið umsóknina þannig að viðskiptahugmynd eða áætluð fjárfesting sé vænleg en áhættan of mikil er hægt að sækja um ábyrgð á láninu.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Þótt meginhugmyndin að baki lánsábyrgðum sé einföld þarf að útfæra hana nánar og er gert ráð fyrir að slíkt verði gert í reglum stjórnar sjóðsins og í samningum við fjármálafyrirtæki. Reglur stjórnar sjóðsins skulu háðar samþykki fjármálaráðherra.“

Að sjálfsögðu, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, kemur fjármálaráðherra að þessu máli vegna þess að verið er að fjalla um fjármuni ríkissjóðs. Það er ekki óeðlilegt að fjármálaráðherra komi að því.

Hv. þingmaður var að velta því fyrir sér hvort stjórnir yfir þessum sjóðum ættu að taka tillit hver til annarrar. Í rauninni er það ekki þannig, þær eru sjálfstæðar hver yfir sínum sjóði en þær eiga að taka mið af þeirri meginstefnu sem mótuð verður í Vísinda- og nýsköpunarráði.

Hv. þm. Helga Hjörvar finnst það gamaldags að nýsköpunarmál, sem skipti landið allt svona miklu máli, séu til umfjöllunar í stofnun sem er með sérstaka áherslu á byggðamál. Ég tel að þetta sé ekki eins og hv. þingmaður segir. Ég sé þetta þannig fyrir mér að nýsköpunarþátturinn sé aðalatriðið en hann eigi hins vegar við um landið allt, eins og hv. þingmaður reyndar sagði, og þótt byggðamálin séu mikilvæg má ekki gera of mikið úr því að þetta sé fyrst og fremst Byggðastofnun. Það er ekki þannig þegar þrjár stofnanir eru sameinaðar en byggðaþátturinn skiptir engu að síður miklu máli.

Hv. þm. Kristján Möller talaði um að þetta væri útfarardagur Byggðastofnunar og þetta væri aumt hlutverk hjá ráðherra o.s.frv. Ég ætla nú ekki að fara frekar út í það en hann spurði bókstaflega að því í lokin hvort það væri tilfellið að þetta væri kannski allt saman gert til að geta gert aðstoðarmann ráðherra að forstjóra. Ég segi bara: Þeir hv. þingmenn eða hverjir það nú eru sem setja slíkt á flot koma upp um sjálfa sig. Þeir hljóta þá sjálfir að vera í einhverju plotti. Að láta sér detta í hug að við förum út í þessar miklu breytingar á öllu þessu skipulagi til þess að koma einhverjum ákveðnum einstaklingi fyrir í forstjórastól, það er náttúrlega þannig ... (ÁRJ: Annað eins hefur nú verið gert.) — það getur verið að það hafi verið gert en það hefur ekki verið gert af hálfu framsóknarmanna. Það er einhver kratalykt af því ef það hefur verið gert.

Hv. þingmaður Vinstri grænna, sem fjallaði um stofnunina, var jákvæð gagnvart því að það mætti einfalda kerfið og taldi það gott og taldi vaxtarsamning í Eyjafirði hefðu reynst vel en hafði efasemdir um að þessar þekkingargreinar, sem hefðu fyrst og fremst starfað á höfuðborgarsvæðinu, mundu starfa á landsbyggðinni. Hún velti því fyrir sér hvort það mundi eitthvað breytast. Það er sjálfsagt bara eðlilegt að hafa efasemdir en hér stendur, með leyfi forseta:

„Efling starfseminnar úti á landi er ein af forsendum þessara breytinga. Þekkingarsetur á landsbyggðinni verður þungamiðja atvinnusóknar sem einkum byggist á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði og getu þess til að ná árangri á alþjóðlegum samkeppnismarkaði“ o.s.frv.

Þetta ítrekar það sem ég hef hvað eftir annað sagt að við erum að breyta atvinnustefnunni í landinu með þessu frumvarpi og ég vonast til þess að ef hv. þingmenn hafa ekki áttað sig á því nú þegar þá muni þeir gera það í því starfi sem fram undan er í þinginu.

Ýmsir hafa verið að velta fyrir sér hvort það eigi að veikja atvinnuþróunarfélögin. Svo er heldur betur ekki. Ég vil fara yfir það í nokkrum atriðum:

1. Frumvarpið mun leiða til þess að áhrif heimamanna á stefnumótun og framkvæmd verkefna verði meiri en ella.

2. Endurskilgreining á stuðningsumhverfinu mun skapa sterkt bakland fyrir atvinnuþróunarfélögin.

3. Verkefnin verða færð í auknum mæli heim í héruð og samningar um þau gerð við heimamenn, t.d. atvinnuþróunarfélög. Með auknum verkefnum munu koma auknar þjónustugreiðslur.

4. Hin nýja stofnun tekur við samningum við atvinnuþróunarfélögin, tekur sem sagt við af Byggðastofnun.

5. Allar eignir og skuldir, varaskuldbindingar, flytjast til nýrrar stofnunar.

6. Ekki stendur til að minnka greiðslur til atvinnuþróunarfélaganna. Þvert á móti geta þau reiknað með auknum verkefnum.

7. Æskilegt er að úttekt verði gerð á starfsemi atvinnuþróunarfélaganna svo mikilvægi þeirra verði sýnilegra.

8. Sú starfsemi sem fram mun fara í þekkingarsetrunum gæti fallið vel að annarri starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og á grundvelli þess kemur til greina að fela atvinnuþróunarfélögunum að annast hana.

Það eru sem sagt allir möguleikar opnir í sambandi við bæði tengsl við atvinnuþróunarfélögin og jafnvel það að þau verði ábyrg fyrir þessum þekkingarsetrum að einhverju eða öllu leyti. Við erum því mjög jákvæð fyrir því að tengja þetta allt saman því þarna er mikil þekking sem vissulega má ekki glatast.

Hv. þm. Jón Bjarnason var eitthvað smeykur um að þarna væri verið að lauma einhverju inn sem gæti verið í þágu einkavæðingar af því að það stendur ekki að þessi stofnun eigi að vera í eigu ríkisins. Það stendur í 1. gr. að hún heyri undir yfirstjórn iðnaðarráðuneytisins. En þar sem um ríkisstofnun er að ræða tel ég að ekki þurfi að taka það sérstaklega fram. En það er ekki nokkur vafi á því að meiningin er sú að þetta sé ríkisstofnun sem heyri undir iðnaðarráðuneytið. Hvernig verður forstöðumaður ráðinn? Það er að sjálfsögðu samkvæmt starfsmannalögum þar sem um ríkisstofnun er að ræða. Hann velti fyrir sér Byggðasjóðnum, þ.e. hvort forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar væri ábyrgur gagnvart stjórn. Svo er ekki. Það er stjórnin sem er ábyrg og tekur ákvarðanir um ábyrgðir í Byggðasjóði og hann fær sínar tekjur í fyrsta lagi af ábyrgðagjaldi og í öðru lagi af ávöxtun eigin fjár.

Ég held, hæstv. forseti, að ég sé búin að fara nokkurn veginn yfir það sem sérstaklega var spurt um. Að sjálfsögðu er hægt að fara betur yfir þetta allt í hv. iðnaðarnefnd. Ég vil bara segja það að lokum að ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég hef mikla trú á þessu máli og hef mikla trú á því líka að við getum náð að samþykkja það nú í vor. Það er mjög mikilvægt að svo verði, ekki síst vegna þess að starfsfólk sem starfar hjá þessum stofnunum er óneitanlega í nokkurri óvissu meðan málið er opið. Þetta mál er vel unnið og það er vel kynnt. Þegar um svo róttækt mál er að ræða eru að sjálfsögðu ekki allir sannfærðir um það í fyrstu en ég trúi því að eftir því sem umræðan þróast muni það fá víðtækan stuðning á hv. Alþingi.