132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:26]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í lok ræðu hæstv. ráðherra að hún telur þetta frumvarp vel kynnt. Mér hefur nú heyrst annað. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er ekki á því að það sé mjög vel kynnt fyrir þeim, alla vega hafa þeir gert miklar athugasemdir við þetta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það vegna þess að þetta hefur verið rætt í ríkisstjórn og stimplað þar og sett fram. Hér á að setja þróunarsjóð og annað slíkt inn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Einn sjóður kemur upp í huga minn, í þessu stutta andsvari get ég ekki spurt um meira, sem er AVS-sjóðurinn svokallaði, aukið virði sjávarafla. Kom ekki til tals t.d. í ríkisstjórn að setja þann sjóð inn í þetta frumvarp, inn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands? Af hverju eru þeir einir teknir sem hér eru nefndir en öðrum sjóðum sleppt?

Í öðru lagi, virðulegi forseti, af því að ég á nokkrar sekúndur eftir: Getur hæstv. ráðherra bara til upplýsingar svarað því hér hvenær skipunartími núverandi forstjóra Byggðastofnunar rennur út?