132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér segir svo hugur að þetta mál komi ekki aftur til umræðu í þinginu svona eins og það er. Þess vegna vil ég, með leyfi forseta, enn einu sinni vitna í það sem hæstv. ráðherra setur fram um Byggðastofnun. Rætt er um að Byggðastofnun eigi við alvarlegan vanda að stríða og sé ekki það forustumál í málaflokknum sem ætla mætti og sinni ýmsum grundvallarhlutverkum ekki nægilega vel. Að auki sé fjárhagsstaðan mjög erfið og fátt bendi til þess að fjármögnunarstarfsemi geti orðið fjárhagslega sjálfbær.

Hér er grafskrift Byggðastofnunar í raun og veru. Það er svo.

Virðulegi forseti. Mín síðasta spurning til hæstv. ráðherra um þetta mál er þessi: Er ráðherra ánægður með að leggja Byggðastofnun Íslands niður?