132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki nokkra ástæðu til tortryggni. Ég held að það skipti ekki mestu máli hvað þessar stofnanir heita, aðalatriðið er hvað þær gera eins og ég sagði áðan. Að sjálfsögðu mun Nýsköpunarmiðstöðin taka við því hlutverki sem Byggðastofnun hafði lögum samkvæmt og mun hafa í þeirri byggðaáætlun sem nú er til umfjöllunar og verður vonandi afgreidd áður en þingi lýkur í vor. Þetta eru aukaatriði, við skulum ekki festa okkur í því hvað stofnanirnar heita.

Það vill svo til að höfuðstöðvar þessarar stofnunar verða á Sauðárkróki svo það hafi nú verið sagt úr þessum ræðustóli í þessari umræðu. Og hvort höfuðstöðvar 30 manna stofnunar eru á Sauðárkróki, eða 20 eða 120 manna stofnunar, ég held að það sé frekar Sauðárkróki í hag að þar séu höfuðstöðvar stærri stofnunar en minni.