132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta snýst að mínu viti alls ekki um stærð stofnunarinnar. Þetta snýst um trúverðugleika stjórnsýslunnar og hvernig þeim fjármunum skuli komið til skila sem tekin er ákvörðun um á Alþingi að renni til byggðamála. Þá er nauðsynlegt að það sé alveg skýrt hvað fari til byggðamála og hvað fari í aðra starfsemi. Ég get ekki betur séð en að þessari stofnun sé fyrst og fremst ætlað annað hlutverk en byggðahlutverkið. Ég hef ekkert á móti því, ég sagði það í umræðunni, mér finnst sú hugsun ágæt í frumvarpinu sem liggur fyrir um sameiningu þessara stofnana, en byggðahlutverkið verður greinilega mjög óljóst þarna og hætta er á að það geti orðið til þess að tortryggni vakni gagnvart annarri starfsemi sem þarna á í hlut. Ég tel að huga þurfi mjög vel að því í nefndarstarfinu.