132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti enn fyrir mér stjórnskipan í þessari hugsanlegu stofnun þar sem gert er ráð fyrir að sérstakur forstjóri verði settur yfir Nýsköpunarmiðstöð Íslands og undir hana heyri síðan hinir sjóðirnir jafnframt, bæði Byggðasjóður og tryggingardeild útflutnings. Þessar deildir eiga samt að hafa yfir sér sérstakar stjórnir. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins stendur að Byggðasjóður, Tryggingarsjóður útflutnings og Tækniþróunarsjóður starfi sem sjálfstæðar einingar með eigin stjórn, enda er hvergi gert ráð fyrir í frumvarpinu að þar séu ráðnir neinir starfsmenn heldur bara stjórn. Ég velti þá fyrir mér hvernig þessir sjóðir muni starfa stjórnsýslulega ef forstöðumaðurinn hefur ekkert með þá að gera, ef þessir sjóðir eiga að starfa á eigin ábyrgð en þó er hvergi gert ráð fyrir starfsmönnum hjá þeim.