132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist þetta vera stjórnunarlegur óskapnaður en það má finna leið fyrir því, ég er ekkert að draga dul á það. En eins og þetta er sett fram sýnist mér þetta ekki vera gæfulegt eða lúta almennum venjulegum stjórnsýslureglum.

En ég vil svo spyrja hæstv. ráðherra: Til hvers erum við að þessu? Til hvers erum við að leggja allar þessar breytingar til? Þetta snýst náttúrlega fyrst og fremst um að fá aukið fjármagn inn í þennan málaflokk. Það snýst um það til að geta gert meira. Það snýst fyrst og fremst um það eða er ekki svo?

En ef við lítum á umsögn fjármálaráðuneytisins þá segir þar: „Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð umfram hugsanleg biðlaun.“

Ég hélt að markmiðið væri að finna farveg fyrir bæði markvissari vinnubrögð og aukið fjármagn inn í þennan geira. Við erum öll sammála um að þar þarf aukið fjármagn. Það gerist ekkert nema við fáum aukið fjármagn, (Forseti hringir.) en svo kemur í ljós að það á ekki að leggja til neitt aukið fjármagn í sjálfu sér og þá spyr maður: Til hvers erum við að þessu?