132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[22:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi óska að hæstv. umhverfisráðherra héldi vendinum meira á lofti til að halda fólki við efnið. Ég verð að segja að síðan stefnumörkun ríkisstjórnarinnar frá 2002 varðandi losunarmál var birt hefur allt of lítið gerst í þessum efnum.

Ég veit ekki til að búið sé að birta neinar niðurstöður eða upplýsingar um auknar rannsóknir á þeim þáttum sem hafa áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda, sem var eitt af þeim atriðum sem átti að fara í vinnu við, ásamt því að ákveðið var að dregið yrði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Sú vinna er ekki farin að skila sér né að ráðist hafi verið í að efla fræðslu og upplýsingagjöf til almennings.

Ég vil halda því fram, frú forseti, að menn hafi legið á liði sínu frá 2002 og jafnvel fyrr, en a.m.k. frá 2002 þegar stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í losunarmálefnunum var samþykkt og birt. Sú stefnumörkun er í endurskoðun og mér þætti fróðlegt að fá heyra hæstv. umhverfisráðherra segja okkur frá árangrinum sem hefur náðst í þeim þáttum sem við stefndum að og höfum í orði kveðnu unnið að undanfarin fjögur, fimm ár. Ég sé ekki að nokkur árangur hafi náðst.

Mér finnst stefnumörkun ríkisstjórnarinnar frá 2002 hafa verið orð á blaði. Ég held að ef einhver árangur hefði orðið af því starfi sem menn sögðust þá ætla í þá hefði hæstv. umhverfisráðherra notað tækifærið í flutningsræðu sinni og montað sig svolítið af árangrinum. En úr því að hún gerir það ekki hef ég efasemdir um að árangur hafi orðið. Mér þætti gott að fá að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra hvernig hún metur þessa stöðu.