132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[23:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leggja örfá orð inn í þessa umræðu um frumvarp til laga um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda. Hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Jóhann Ársælsson og fleiri sem hafa talað á undan mér hafa farið ítarlega í gegnum þetta.

Fyrir mér vakir að inna hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvaða stefnu ríkisstjórnin ætlar að taka í framkvæmdum sem hafa gríðarleg áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Hér er um að ræða frumvarp til laga um skráningu. Það er ofboðslega gott alltaf að halda skrá yfir hlutina. En einhver veginn finnst mér vanta tilganginn og markmiðið. Eins og kemur fram í frumvarpinu erum við skuldbundin af alþjóðasamningum að halda skrá yfir hver þróunin er hjá okkur í losun gróðurhúsalofttegunda.

Við undirrituðum Kyoto-bókunina þar sem segir m.a. að markmið Kyoto-bókunarinnar sé að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda, fyrst og fremst í iðnríkjum. Bókunin tekur til sex gróðurhúsalofttegunda: koldíoxíðs, metans, nituroxíðs, vetnisflúorkolefnis, perflúorkolefna og brennisteinshexaflúoríðs. Bókunin kveður á um að aðildarríki skuli takmarka losun þessara lofttegunda miðað við losun árið 1990. Fyrsta skuldbindingartímabil bókunarinnar er fimm ár, 2008–2012.

Þetta er það sem við höfum skuldbundið okkur til. En það er ekki þar með sagt að við höfum þá jafnframt skuldbundið okkur til nýta þetta til hins ýtrasta eða teygja þetta umfram það sem í rauninni samningurinn felur í sér. Það er ekki heldur þar sem sagt að við eigum á þessu tímabili að taka þetta allt út. Sem betur fer og vonandi erum við ekki hinir síðustu mannlegu íbúar jarðarinnar. Við höfum þess vegna engan rétt til að tæma hér öll glös í botn, þar á meðal þennan kvóta sem settur er á losun gróðurhúsalofttegunda. Við höfum bara engan rétt til þess að tæma hann í botn. Ég hefði viljað sjá hæstv. umhverfisráðherra koma hér sem öflugan talsmann fyrir þeim málaflokki sem henni er trúað fyrir en ekki koma hér eins og skráningaraðili á eftir iðnaðarráðherra, álráðherranum sem við vitum að á sér sinn æðsta draum að hér standi álver hlið við hlið.

Í Spaugstofunni um daginn var spurt hvers Vesturbæingar eigi að gjalda þar sem þeir hafa ekki álver og hvers Miðbæingar eigi að gjalda í Reykjavík þar sem þeir fá ekki álver. Spaugstofan taldi að nýja hátæknisjúkrahúsið væri dulbúið álver. Þarna er að vísu verið að gera grín, en í alvöru þó. Svo kemur umhverfisráðherrann og býðst til að vera skráningaraðili á eftir iðnaðarráðherranum, að skrá mengunina niður sem iðnaðarráðherra er að berjast fyrir að fá. Hæstv. ráðherra hefur engu svarað um stefnu íslenska ríkisins við næstu samningalotu 2013, eða eftir að þessu tímabili lýkur. Hún er engin önnur en sú sem birtist í þeim áformum sem liggja hér fyrir um stóraukna mengandi stóriðju. Það er kannski það eina sem er talandi tákn fyrir þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur. En umhverfisráðherrann ætlar að koma hingað og vera reiðubúin að vera skrásetningaraðli og skrá þessar gróðurhúsalofttegundir. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra hvort henni finnist ekki réttara frekar að stíga fram og segja: „Bíðum við. Við höfum þessar hámarksheimildir. Fram úr þeim verður ekki farið. Ég mun berjast fyrir því að þær verði ekki einu sinni nýttar. Ég tel það samfélagslega og þjóðfélagslega skyldu okkar, skyldu gagnvart umheiminum, skyldu gagnvart framtíðinni, að við nýtum þær ekki í botn.“ Þetta væri miklu sannari og heiðarlegri framsetning af hálfu umhverfisráðherra heldur en að flytja hér frumvarp um að skrá mengunina frá þeim álverum sem eru fyrirhuguð. Fréttirnar eru sko aldeilis dæmalausar. Ég held að það væri ágætt ef hæstv. umhverfisráðherra gæfi einhverja umsögn um þær fréttir sem hafa heyrst síðustu daga. Í dag var frétt um að flýta ætti byggingu álvers við Húsavík. Það er ekki einu sinni farið að kanna orkuöflunina þar. En samt er þetta komið á fulla ferð.

Ég er alveg sammála hæstv. umhverfisráðherra sem hristir höfuðið yfir þessu öllu saman. En með þessu er verið að gegnsýra þjóðina. Það er álverið í Helguvík, stækkun í Straumsvík og Norðurál taldi að þeir væru að gera íslenska ríkinu alveg ofboðslegt gagn með að flýta stækkuninni á Grundartanga. Ég spyr: Er verið að gera málefnum umhverfisráðherra gagn eða hver er varðstaða umhverfisráðherra gagnvart þessu æði? Samtímis því að við heyrum fréttir af því að flýta eigi framkvæmdum við álbræðsluna á Húsavík, sem vonandi verður aldrei, þá birtist viðtal við Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Hann segir: „Við getum búist við að þurfa hækka vextina upp í 16%.“ Það er samtímis þessu rugli. Svo kemur umhverfisráðherra og segir: „Ég skal skrá niður þessar gróðurhúsalofttegundir.“ Það er það eina sem hún hefur að leggja til málanna. (Gripið fram í: Færa til bókar.) Hún ætlar að færa það til bókar og þá er það bara á aðra hliðina.

Frú forseti. Mér finnst þetta aldeilis dæmalaust og sú umræða sem nú fer fram í þjóðfélaginu. Hagfræðistofnun Háskólans þóttist vera að reikna núna út að menn græddu svo ofboðslega á álverum, sérstaklega ef þeir gerðu ekki neitt annað því ef þeir færu að gera eitthvað annað yrði gróðinn náttúrlega ekki eins mikill og reyndar enginn. Talað er um að við gætum jafnvel aukið hagvöxtinn um 1% með því að leggja landið allt undir álver. Svo koma aðrir og segja að þetta sé sá lélegasti bisness sem hægt er að leggja í. En við erum að fórna umhverfinu. Við erum að fórna framtíðarlífsmöguleikum okkar fyrir þetta æði. Umhverfisráðherrann og ríkisstjórnin hafa enga stefnu í umhverfismálum hvað þetta varðar. Það er bara sagt: „Við skulum skrá þetta niður.“

Ég vil minna á það, frú forseti, að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til að nú verði staldrað við, að stóriðjuframkvæmdirnar yrðu stoppaðar. Við höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um það að úr því Alþingi og ríkisstjórn séu þess ekki umkomin að stöðva þetta og vilji það ekki þá verði þjóðin að fá tækifæri til að stöðva þetta brjálæði. Við höfum þess vegna lagt til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla verði þetta ekki stöðvað með öðrum hætti, og hún feli í sér að þjóðin taki afstöðu til þess hvort hún vilji halda áfram stóriðjuæðinu og þeim gríðarlegu umhverfisspjöllum sem fylgja stóriðjunni eða að þetta verði stöðvað. Við leggjum til að við ljúkum því sem núna er í byggingu en að öðru leyti verði þetta stöðvað. Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor.

Meira að segja er þessi álverksmiðja á Reyðarfirði ekki enn komin í gegnum umhverfismat. Af því hæstv. umhverfisráðherra er líka ráðherra skipulagsmála, hvernig má þá vera að hæstv. ráðherra láti það viðgangast að óáreitt skuli haldið áfram með þessa eina stærstu framkvæmd landsins, stærstu mengunarframkvæmd landsins, án þess að útgefin hafi verið viðhlítandi starfsleyfi, án þess að uppfyllt hafi verið lög um umhverfismat? Ég veit bara að menn fá ekki einu sinni heimild til að setja skúr eða gám niður til bráðabirgða á lóð sinni eða nálægt henni án þess að fá til þess tilskilin leyfi. En þarna virðist vera allt í lagi að brjóta öll lög.

Það er ekki bara eitt heldur allt varðandi stóriðjuframkvæmdir eins og þarna fyrir austan. Umhverfismatið á Kárahnjúkavirkjun má nefna til dæmis. Skipulagsstofnun taldi að þar yrðu svo mikil umhverfisspjöll að það réttlætti ekki þær gríðarlegu framkvæmdir. Samt sneri pólitískur ráðherra því við. Svo þegar kemur að byggingu verksmiðjunnar þá eru aftur öll lög brotin. Síðan kemur umhverfisráðherra og segir: „Jú, ég skal skrá niður þessi umhverfisspjöll, þessa mengun. En ég og ríkisstjórnin höfum enga stefnu hvað það varðar.“

Ágætisgrein birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar síðastliðinn. Það er viðtal við Árna Finnsson þar sem hann fjallar um hvað gerist 2013, hver verði stefna ríkisstjórnarinnar að loknu því tímabili sem um var samið til 2012. Engin svör hafa komið hér frá hæstv. umhverfisráðherra um það, engin stefna önnur en að þau muni reyna að snapa alla þá mengunarkvóta sem hægt verður að snapa upp. Það virðist vera stefnan, þ.e. að snapa mengunarkvóta fyrir þessa stóriðju í staðinn fyrir að axla ábyrgð gagnvart umhverfinu, gagnvart alheiminum og vinna á hinn veginn.

Frú forseti. Það er dapurt að þurfa að upplifa svona lagað. Einhver sagði hér um daginn að umhverfismálin væru svo mikil hornreka í þessari ríkisstjórn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið á móti umhverfisráðuneytinu. Hann lagðist mjög hart gegn því þegar það var stofnað og þeim málaflokki sem því var ætlað að standa fyrir. Sumar lengstu ræður sem hafa verið haldnar hér á þingi fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins gegn stofnun umhverfisráðuneytisins. Menn skyldu hafa það í huga þegar þeir meta hina afburðaslöppu stöðu umhverfismála hjá þessari ríkisstjórn. Kannski er það þetta sem við þurfum enn að búa við. Ekki þurfum við að vænta mikils umhverfisáhuga hjá Framsóknarflokknum. Það höfum við reynt. En við hefðum gjarnan viljað fá sterkari eða að minnsta kosti einhver viðbrögð frá Sjálfstæðisflokknum því við heyrum þó að minnsta kosti að innan þeirra raða er fólk sem hefur áhuga á umhverfismálum og vill standa sína plikt og meira en það, vill hafa áhrif og verða við þeim alþjóðlegu kröfum sem gerðar eru til þjóða í umhverfismálum. Þess vegna er svo dapurt að hér skuli einungis lagt til að skrá niður ósómann.

Frú forseti. Ég get bara ekki orða bundist eftir að hafa heyrt allar þessar fréttir í dag og í gær um álbræðslur sem eiga núna að koma hér á færibandi. Verksmiðjurnar virðast telja sér það til tekna og vonast til að fá prik hjá ríkisstjórninni ef þeir geta flýtt framkvæmdum, flýtt þeim. Samtímis kemur seðlabankastjóri og segir: „Þenslan er svo ofboðsleg og við megum búast við að þurfa að hækka stýrivextina í 16%.“ Það sagði hann í dag. Ríkisstjórnin tekur ekkert mið af neinu heldur er það álæðið sem rekur hana áfram. Síðan á umhverfisráðherra koma og skrá ósómann eins og þetta frumvarp hér ber vott um.

Ég held að það væri ágætt svona í lokin að vitna til forustugreinar Morgunblaðsins. Hún er reyndar frá 20. mars 2005. Morgunblaðið hefur stundum skrifað skynsamlega um umhverfismál og varað við álæðinu. Það er gert í þessum leiðara þar sem segir, með leyfi forseta:

„Stóriðjustefnan, sem mótuð var hér á landi á sínum tíma, hafði það ekki síst að markmiði að nýta orkuna, sem býr í fallvötnunum, og skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf landsins. Nú er svo komið að frekari nýting vatnsorkunnar er orðin verulegum vandkvæðum bundin. Enn fremur má spyrja hvort brátt fari að verða komið nóg af álverum — hvort frekari fjölgun þeirra geti orðið til að gera íslenskt atvinnulíf einhæfara, fremur en fjölbreyttara, og að tekin sé óþörf áhætta með því að hafa þannig mörg egg í sömu körfu.

Allt þetta þarf að vega og meta áður en lengra er gengið í uppbyggingu stóriðju. Það þarf líka að meta áhrif stóriðju á aðrar atvinnugreinar, til dæmis ferðaþjónustu.“

Við vorum einmitt að fá ályktanir í dag í tölvupósti frá Samtökum ferðaþjónustunnar og fleirum þar sem varað var við frekari umhverfisspjöllum og uppbyggingu stóriðju og áhrifum þeirra á þennan mikilvæga atvinnuveg.

Það er sama hvert litið er. Varnaðarorðin koma um að við séum á rangri leið. En þá er það tillaga þessarar ríkisstjórnar að athuga hvernig hægt sé að sækja í meiri mengunarkvóta til að vinna meiri umhverfisspjöll, til að byggja fleiri álver, til að menga meira, til að vera með meiri ruðningsáhrif á íslenskt atvinnulíf, til að gera okkur enn háðari einhæfri stóriðju. Það er ekkert smámál ef eitt eða tvö erlend stórfyrirtæki, álfyrirtæki, eru komin með kannski milli 80% og 90% eða yfir 80% af allri raforkuframleiðslu landsmanna og gera svo líka ofan í kaupið kröfu til mengunarkvóta, sem svo má kalla, sem Ísland hefur yfir að ráða kannski til næstu áratuga eða alda.

Frú forseti. Í lokin skora ég á hæstv. umhverfisráðherra að standa með umhverfinu og berjast fyrir það en ekki koma bara eins og skráningaraðili eftir að allt er um garð gengið, eins og þetta frumvarp ber með sér, góðra gjalda vert svo langt sem það nær. En pólitíska stefnumörkun hefur það enga.