132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[00:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. umhverfisráðherra talaði um skýrslu Norðurskautsráðsins um loftslagsbreytingar. Benti okkur á að til marks um metnað íslensku ríkisstjórnarinnar, eftir því sem manni skildist, í loftslagsmálunum hafi Íslendingar verið í forsæti í Norðurskautsráðinu þegar skýrslan kom út. Það er auðvitað rétt. En hæstv. ráðherra sagði líka að það væri ástæða til að taka mark á skýrslunni.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í fréttum sjónvarps í kvöld. Þar lét hann í veðri vaka að hlýnunin á norðurslóðum hefði í sér fólgin ýmis tækifæri fyrir okkur Íslendinga, m.a. opnuðust möguleikar fyrir okkur til að fara að bora eftir olíu á svæðinu kringum norðurpólinn.

Ég vil bara fá að heyra hæstv. umhverfisráðherra segja eitthvað um það hvort hún er sammála hæstv. forsætisráðherra um að skýrsla Norðurskautsráðsins um hlýnun í Norðurhöfum feli fyrst og fremst í sér tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að bora eftir olíu. (Forseti hringir.)