132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[00:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel ástæðu til að fagna þessu frumvarpi. Það hafa orðið miklar breytingar á þeirri starfsemi sem Landmælingar Íslands sinntu einar áður. Það er eðlilegt að taka tillit til þeirra breytinga með frumvarpi af þessu tagi, frumvarpi sem lætur markaðsaðila um samkeppnisrekstur en stillir Landmælingum þar á móti upp sem ríkisstofnun sem sér um tiltekin mál, sérstaklega um hæðakerfið og landshnitakerfið, og um að hafa tiltæk öll grunngögn sem hér eru talin upp og eðlilegt er að Landmælingarnar hafi.

Þótt einstök fyrirtæki kunni að láti mannalega sýnist mér að það skapi þeim ekki þann rétt að taka við því hlutverki sem Landmælingunum er falið hér og ég tel vera stjórnsýsluhlutverk, að minnsta kosti eins langt fram og séð verður.

Það vakna svo ýmsar spurningar sem við hljótum að fara í gegnum í nefndinni sem um þetta fjallar. Þær varða m.a. það sem um er fjallað í 7. gr. í fjármögnuninni, raunar líka í 5. gr. og ef til vill 6. líka. Þar vakna m.a. spurningar vegna orðalags sem ég vona að ráðherra geti skýrt fyrir mér á eftir. Í síðustu mgr. 7. gr. er tekið fram að miðað sé við að gjöld í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir séu þjónustugjöld. Gjaldskrá sú skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna, en mér er ekki ljóst hvort þessi málsgrein á við alla töluliðina, nr. 1, 2, og 3, í 7. gr. eða hvort hún á aðeins við þann síðasta, við þann þriðja.

Þetta skiptir auðvitað verulegu máli vegna þess að í þeim fyrsta er kveðið á um afnotasölu og höfundarrétt og mér skildist á ræðu ráðherra að þetta ætti að vera óbreytt frá því sem nú er. En þetta er eitt af þeim atriðum sem valdið hafa núningi og spennu á milli Landmælinga og einkaaðila, þ.e. Landmælingar hafa eðlilega krafist gjalds fyrir það efni sem stofnunin lætur af hendi. Eins og staðan er nú hafa Landmælingar sjálfdæmi um hvert það gjald er. Það er þeirra mat og verður ekki borið undir aðra og það hafa menn verið óánægðir með.

Nú má segja að réttlæting sé að baki slíku gjaldi, sú réttlæting að fyrirtæki sem notfæra sér efnið, og þá fyrst og fremst kaupendur, notendur efnisins, eigi þá að bera uppi kostnað við viðhald kerfisins og öflun nýrra upplýsinga. Sums staðar í samfélaginu er þetta haft með þessum hætti, ég nefni bílaskatta. Hin viðtekna réttlæting þeirra er sú að bíleigendur eigi að taka þátt í viðhaldi og uppbyggingu vegakerfisins. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að slíkt eigi við í þessu tilviki. Ég held að þessar upplýsingar séu ákaflega mikilvægar, ekki bara fyrir þá sem kaupa kort heldur fyrir allt það þekkingarsamfélag sem hér er fram undan. Ég held að það sé í sjálfu sér mjög mikilsvert markmið að upplýsingarnar og gögnin sem geymd eru hjá Landmælingum, og Landmælingar halda áfram að byggja upp og þróa, berist sem allra víðast um samfélagið og með sem allra minnstum kostnaði. Þannig að þessar grunnupplýsingar séu reiddar fram af almannavaldinu sem partur af þjónustu þess við Íslendinga og fyrirtækin sem við sögu koma, að sjálfsögðu þó þannig að greitt sé fyrir sem nemur kostnaði. Þetta er álitamál en ég spyr hvor kosturinn sé réttur í þessu. Er það þannig að síðasta málsgreinin eigi bara við 3. töluliðinn eða á hún við þá alla?

Þetta þarf að lýsast því ef við ætlum að koma á sæmilegri samvinnu og skjóta stoðum undir Landmælingarnar verður það að vera í þokkalegri sátt og með mjög skýrum samvinnuháttum milli hinnar opinberu stofnunar og þeirra einkaaðila sem koma við sögu.

Annað vil ég spyrja um í þessari ræðu sem ég skal þó ljúka mjög snemma. Það er um frumvarp sem sögur bárust af að væri í undirbúningi í forsætisráðuneytinu og að minnsta kosti einhverjir héldu að væri frumvarp sem væri almennt um afhendingu opinberra gagna og hvernig háttaði með höfundarrétt eða birtingargreiðslur fyrir þau gögn. En það hefði vissulega verið fróðlegt að fá slíkt frumvarp og kannski eðlilegt að settar séu heildarreglur um þetta því vandamál sem hér koma upp kringum Landmælingarnar og breytingarnar á þeim eiga víðar við í ríkisstofnunum og eiga við fleiri upplýsingar sem þar eru geymdar og eru í almannaeigu en það sem hér kemur við sögu. Ég vissi til að slíkt frumvarp var á leiðinni og var m.a. sagt það í fréttum frá mönnum utan Stjórnarráðsins þannig að ég er ekki að brjóta neins konar trúnað við aðra sem höfðu sagt mér þetta. Ég spyr. Af hverju er þetta frumvarp ekki samferða í gegnum þingið eða er von á því næstu daga?