132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Úrvinnslugjald.

714. mál
[01:18]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Frumvarp það sem ég mæli fyrir felur í sér breytingar á lögum um úrvinnslugjald. Lögin hafa tekið nokkrum breytingum frá því að þau voru samþykkt árið 2002 í ljósi reynslunnar af framkvæmd þeirra. Helsta breytingin sem hér er lögð til er að það verði hlutverk Úrvinnslusjóðs en ekki sveitarfélaga að tryggja að tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu verði náð. Er þessi breyting byggð á tillögu nefndar sem ég skipaði í fyrra.

Nefndinni var falið það verkefni að gera tillögur um skýra verka- og kostnaðarskiptingu milli Úrvinnslusjóðs og sveitarfélaga um þær tegundir úrgangs sem falla undir lög um úrvinnslugjald. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Úrvinnslusjóðs og Samtaka atvinnulífsins. Þá er í frumvarpi þessu einnig tekið mið af tillögum nefndar sem fjallar um framkvæmd móttöku á pappa- og plastumbúðum sem berast með söfnunarkerfi sveitarfélaga og starfa samkvæmt 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög um úrvinnslugjald.

Tillögur um breytta verkaskiptingu milli Úrvinnslusjóðs og sveitarfélaga byggja á því að gildandi reglur úrvinnslugjaldslaga henta ekki fyrir pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgang. Til samanburðar má nefna úrgangsflokk eins og spilliefni þar sem stefnt er að því að ná öllum spilliefnum hvar sem þau falla til á landinu. Í þeim tilvikum er eðlilegt að ábyrgðin liggi hjá sveitarfélögum.

Hvað snertir pappa-, pappírs- og plastumbúðir á að endurvinna að lágmarki 25% af öllum umbúðaefnum í umbúðaúrgangi og árið 2012 verður sú krafa komin upp í 55%. Tvær meginástæður eru fyrir því að kerfi samkvæmt gildandi lögum hentar ekki fyrir umbúðaúrgang. Annars vegar verður Úrvinnslusjóður að greiða fyrir ráðstöfun úrgangsflokka vegna vara sem úrvinnslugjald er greitt af án tillits til áðurnefndra tölulegra markmiða. Úrvinnslusjóður verður því að greiða fyrir úrvinnsluumbúðaúrgang sem safnast saman þó svo sú söfnun fari yfir þau tölulegu markmið sem sett hafa verið. Hins vegar er skylt að ná áðurnefndum markmiðum í hverju einstöku sveitarfélagi eða a.m.k. á svæði hverrar svæðisáætlunar. Ljóst er að þetta fyrirkomulag verður dýrt sem leiðir til að leggja verður hærra úrvinnslugjald á umbúðir til að standa undir kostnaði. Kerfið verður því dýrara en nauðsynlegt er og einnig erfitt í framkvæmd þar sem ná þarf markmiðum í öllum sveitarfélögum. Rétt er að benda á að öll vandamál koma ekki upp við aðra flokka úrgangs sem falla undir lög um úrvinnslugjald þar sem gert er ráð fyrir að öllum slíkum úrgangi sé safnað og komið í endanlega förgun eða endurnýtingu.

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að Úrvinnslusjóði verði falið það hlutverk að ná settum tölulegum markmiðum sem fram koma í reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, og að þeim megi ná á landsvísu. Tillögur þessar miða að því að tryggja að Úrvinnslusjóður hafi sveigjanleika til að ná þessum markmiðum á sem hagkvæmastan hátt. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn greiði þjónustuaðilum sem semja við hann tiltekna upphæð fyrir ákveðið magn af flokkuðum umbúðaúrgangi, enda liggi fyrir staðfesting frá úrvinnsluaðila um endurnýtingu. Ekki skiptir máli hvort þjónustuaðili sækir úrgang til fyrirtækis eða sveitarfélags. Auk þess greiðir Úrvinnslusjóður flutningsþóknun fyrir flutning frá þeim stað þar sem umbúðum er safnað til þess staðar þar sem endurnýting eða útflutningur fer fram.

Úrvinnslusjóður getur einnig ef hann telur þörf á boðið sveitarfélögum ákveðið gjald fyrir flokkaðan umbúðaúrgang sem kemur frá heimilum. Ég legg áherslu á að gert er ráð fyrir að gjald það sem sjóðurinn býður sveitarfélögum er greitt til að hvetja þau til söfnunar á pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangi frá heimilum. Það er síðan sveitarfélaganna að ákveða hvernig slíkri söfnun er háttað. Til dæmis gæti sveitarfélag boðið slíkt út til einkaaðila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framkvæmd verði nánar útfærð í reglugerð samkvæmt tillögu að nýrri 4. mgr. 21. gr. laganna. Úrvinnslusjóður mun miða að gjaldi sem hann býður þjónustuaðilum og sveitarfélögum við það að markmið um hlutfall úrgangs sem fara skal í endurvinnslu náist. Með þessu fyrirkomulagi verður ekki þörf á að skilgreina nákvæmlega í lögum um úrvinnslugjald undir hvaða kostnaðarþáttum úrvinnslugjald þessa úrvinnsluflokks eigi að standa eins og nú er gert. Gjaldið mun þess í stað taka mið af þeim kostnaði sem Úrvinnslusjóður þarf að leggja í til að ná þeim árangri sem honum ber að ná. Með þessu er ætlað að tryggja Úrvinnslusjóði meira svigrúm til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið samanber 1. og 2. gr. frumvarpsins. Rétt er að benda á að gert er ráð fyrir að sjóðurinn greiði einnig hluta kostnaðar vegna flutnings á umbúðaúrgangi innan lands.

Til að tryggja enn frekar svigrúm sjóðsins til að ná tölulegum markmiðum fyrir pappa-, pappírs- og plastumbúðir er lagt til í a-lið 3. gr. frumvarpsins að Úrvinnslusjóði verði heimilt að ákveða fyrir hvaða umbúðategundir hann greiðir vegna endurvinnslu og endurnýtingar. Endurnýtingarleiðir fyrir pappa-, pappírs- og plastumbúðir eru ýmsar og tel ég mikilvægt að Úrvinnslusjóður hafi svigrúm til að safna þeim tegundum umbúðaúrgangs sem hagkvæmast er að safna.

Í frumvarpinu er lagt til að aukin ábyrgð verði lögð á Úrvinnslusjóð sem mun á móti hafa sveigjanleika til að gera nákvæmar áætlanir um hvort og þá hvaða greiðslur eigi að bjóða sveitarfélögum og þjónustuaðilum fyrir flokkaðan umbúðaúrgang. Úrvinnslusjóður þarf tíma og sveigjanleika til að tryggja að tilætluðum árangri sé náð á sem hagkvæmastan hátt. Í þessu samhengi legg ég áherslu á að hér er ekki verið að leggja til að seinka móttöku á flokkuðum pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangi, en móttaka er þegar hafin á ákveðnum tegundum flokkaðs umbúðaúrgangs. Eðlilegt er að frekari og markvissari móttöku á pappa-, pappírs- og plastumbúðum, einkum frá heimilum, verði komið á í nokkrum skrefum. Í því skyni er mikilvægt að líta til þeirrar reynslu sem fengin er af framkvæmd laganna um næstu skref. Rétt er að taka skýrt fram að ekki eru lagðar til neinar breytingar á fyrirkomulagi annarra úrgangsflokka en þeirra sem falla undir pappa-, pappírs- og plastumbúðir. Það er mat nefndar sem falið var að koma með tillögur um breytta verka- og kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og Úrvinnslusjóðs að sátt ríki hjá öllum aðilum um núverandi kerfi fyrir þá flokka sem ekki þarf að ná tölulegum markmiðum fyrir og falla undir lög um úrvinnslugjald.

Einnig eru lagðar til breytingar á lögunum er varða margnota flutnings- og safnumbúðir, heimild til yfirfærslu ábyrgðar á greiðslu úrvinnslugjalds frá framleiðanda og innflytjanda til kaupanda, ákvæði um sérstakt úrvinnslugjaldsskírteini auk annarra breytinga er varða m.a. tengsl við ný tollalög. Tillögur þessar voru unnar í nánu samstarfi við Úrvinnslusjóð, fjármálaráðuneyti, tollstjórann í Reykjavík og ríkisskattstjóra. Í samræmi við áherslu mína á að úrvinnslugjaldskerfið gangi vel fyrir sig er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að gefa út svokölluð úrvinnslugjaldsskírteini. Úrvinnslugjaldsskírteini verða gefin út af skattstjórum til þeirra sem flytja inn umbúðir, gerðar úr pappa, pappír eða plasti og seldar til þriðja aðila. Skírteinið veitir heimild til að kaupa umbúðir án úrvinnslugjalds af innflytjendum og innlendum framleiðendum.

Fyrirmynd úrvinnslugjaldsskírteinis er vörugjaldsskírteini heildsala sem útgefið er af skattstjóra. Þær forsendur eru settar fyrir útgáfu slíkra skírteina að umbúðirnar séu utan um vörur til útflutnings eða til nota utan um vörur sem fara á innanlandsmarkað svo og að umsækjandi hafi atvinnu af þessari starfsemi. Tilgangurinn er að einfalda innheimtu úrvinnslugjalds.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær nýjar reglugerðarheimildir. Annars vegar að ráðherra skuli setja reglugerð sem skilgreini hvað felist í greiðslu fyrir meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna. Skýra þarf betur hvaða kostnað Úrvinnslusjóði ber að greiða vegna annarra úrgangsflokka en umbúðaúrgangs. Nefnd sem falið var að gera tillögur um skýra verk- og kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og Úrvinnslusjóðs benti á að réttast væri að gera módel fyrir ákveðna vísitölusöfnunarstöð til að nota við útreikninga á greiðslum til sveitarfélaga. Hins vegar er lagt til að sett verði reglugerðarákvæði um hvernig standa skuli að greiðslum til að ná þeim tölulegu markmiðum sem sett eru um endurnýtingu og endurvinnslu umbúðaúrgangs. Þannig verði heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði til samræmis við þær tillögur að framkvæmd sem ég greindi frá varðandi breytta ábyrgðarskiptingu milli sveitarfélaga og Úrvinnslusjóðs.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.