132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[01:40]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi hlutafélagavæðinguna þá er það ekki komið lengra í mínum huga heldur en í þessu frumvarpi segir því að það er ekki hægt að huga að því nema Alþingi veiti þær heimildir sem þarf. Hins vegar er það ekkert nýmæli hér, og það er ekki verið að finna neitt upp, þegar verið er að ræða um þetta því að aðrar þjóðir hafa farið út á þá braut að einkavæða þessa starfsemi með því að semja við einkaaðila t.d. um gæslu sinnar land- eða lofthelgi eða annast flugeftirlit eins og gert hefur verið í Ástralíu. Norðmenn notast við einkafyrirtæki og skip í einkaeign í sinni strandgæslu til að annast gæslu á sínu hafsvæði.

Varðandi 5. gr. er þetta ákvæði sem hv. þingmaður nefndi í greinargerð frumvarpsins rækilega útskýrt. Ég las það ekki upp en það hefur ekkert að gera með friðargæslu. Hér segir, með leyfi forseta:

„Hér getur verið um margs konar tilmæli að ræða sem beint er til LHG vegna tækjabúnaðar og sérhæfingar innan stofnunarinnar, t.d. með varðskipum, sjómælingaskipi, þyrlum eða flugvél. Hjá stofnuninni starfar sérhæft starfsfólk og stofnunin á mjög sérhæfðan tækjabúnað. Sem dæmi má nefna þyrlur sem hafa leyfi til yfirflugs yfir sjó. Einnig tæki til sprengjueyðingar, vélmenni og önnur tæki sem nota má í öðrum tilgangi en lögin segja til um, t.d. til að eyða hættulegum efnaúrgangi …“

Þarna eru nefnd ýmis verkefni sem þessir aðilar geta sinnt. Það er ekki verið að tala þarna um neitt í sambandi við friðargæslu eða slíka hluti.