132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[01:45]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um Landhelgisgæslu Íslands. Ég get alveg tekið undir það með hæstv. dómsmálaráðherra að það geti verið mjög heppilegt að ræða málefni Landhelgisgæslunnar í því umhverfi sem við erum stödd í núna í ljósi þeirra tíðinda sem bárust frá Washington um varnarmálin.

Ég held að flestir í þessum sal og flestir Íslendingar vilji veg Landhelgisgæslunnar sem mestan þó það væri ekki nema vegna þeirrar ástæðu að við stundum sjávarútveginn af miklum krafti og þurfum að tryggja öryggi íslenskra sjómanna. Að sama skapi stundum við sömuleiðis öfluga ferðamennsku uppi á fjöllum og erum að markaðssetja Ísland sem slíkt ferðamannaland. Hluti af því er að sjálfsögðu að tryggja öryggi viðkomandi ferðamanna við alls konar aðstæður. Í því samhengi leikur Landhelgisgæsla Íslands lykilhlutverk.

Undanfarnar vikur að hefur staðið umræða um þyrlur Landhelgisgæslunnar og sú staða kom víst upp að báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar voru frá á sama tíma. Ég held að sú staða hafi undirstrikað það að við þurfum að bæta kost Landhelgisgæslunnar hvað varðar þyrlurnar.

Við sjáum líka að mikil umræða er í samfélaginu um öryggishagsmunina og þá ekki síst út frá varnarmálunum. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji að starfsemi Landhelgisgæslunnar muni vaxa vegna brotthvarfs hersins og þá með hvaða hætti. Hver er framtíðarsýn hans á Landhelgisgæsluna í ljósi þess nýja umhverfis sem við erum í vegna brotthvarfs bandaríska hersins frá Miðnesheiði?

Í greinargerð þessara frumvarpa kemur einnig fram að Landhelgisgæslan hafi samstarf við aðrar þjóðir á sviði öryggismála. Mig langar því að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvers konar samstarf verið er að tala um í þessu samhengi. Er verið að tala um hernaðarlegt samstarf og þá við hverja? Í frumvarpinu og sömuleiðis í framsöguræðu hæstv. dómsmálaráðherra var nefnd hin nýja umgjörð Landhelgisgæslunnar. Því langar mig að spyrja: Er hér um að ræða einhvers konar efnisbreytingu á hlutverki Landhelgisgæslunnar? Hæstv. dómsmálaráðherra nefndi að sum af hinum eðlilegu verkefnum Landhelgisgæslunnar hafi ekki verið í lögum hingað til, svo sem fiskveiðieftirlitið. Það er alveg sjálfsagt að bæta út því. En erum við að feta einhverjar nýjar slóðir varðandi nýtt hlutverk Landhelgisgæslunnar? Svo langar mig einnig að spyrja beint út: Er verið að gera ráð fyrir einhvers konar hernaðarlegu varnarhlutverki Landhelgisgæslunnar eða er þetta bundið við klassíska öryggishagsmuni sem eru ekki hernaðarlegir, þ.e. ef hægt er að gera greinarmun á þessu?

Við sjáum að í greinargerð frumvarpsins er vísað í nokkrar skýrslur. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Við mat á öryggishagsmunum Íslands og gæslu þeirra hefur í vaxandi mæli verið litið til LHG. Í skýrslu nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar um öryggis- og varnarmál frá 1993 er minnt á að öryggi ríkja sé ekki háð landvörnum eingöngu heldur komi fleiri þættir þar til álita. Þar er vikið að yfirráðum yfir náttúruauðlindum og sagt: „Íslendingar byggja tilveru sína á auðæfum hafsins. Verndun fiskveiðilögsögunnar og fiskstofna er meðal grundvallarhagsmuna þjóðarinnar. Alþjóðleg sókn í fiskstofna hefur aukist svo að þeir eru í hættu. Íslendingar hafa tryggt hag sinn með landhelgisbaráttu og hefur Landhelgisgæslan átt þar stóran hlut á liðnum árum.“ Einnig segir um umhverfisvernd: „Mengun hafsins og mengunarslys, ekki síst hvað kjarnorku snertir, en einnig hvers konar eitrun og úrgangur, notkun og vinnsla olíu og annarra auðæfa á hafsbotni, gætu stórskaðað undirstöður íslensks atvinnulífs. Langt út fyrir 200 mílna efnahagslögsöguna er vernd hafsins gegn öllum þessum hættum mikilsverð gæsla varanlegra öryggishagsmuna, sem tryggja þarf með alþjóðlegum samningum.“ Ljóst er að ekki er unnt að fylgja eftir slíkri gæslu nema með virku eftirliti á vegum LHG.

Þegar rætt er sérstaklega um varnir landsins segir í skýrslu þessarar nefndar frá 1993: „Öðru hverju hafa orðið umræður um aukinn hlut Íslendinga í vörnum lands síns. Áfram á að fylgja þeirri stefnu að íslenskir aðilar taki að sér þá þætti í störfum varnarliðsins, sem ekki krefjast annarra skuldbindinga en samræmast borgaralegum störfum. Sérstaklega þarf að líta á hlut Landhelgisgæslunnar í eftirlitsstörfum umhverfis landið, en það kom fram í samtölum nefndarinnar, einkum í Brussel, að áhugi er á því að nýta krafta Gæslunnar í þágu NATO.“

Snemma árs 1999 gaf utanríkisráðuneytið út greinargerð um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót. Þar segir, þegar hagsmunum þjóðarinnar er lýst: „Sókn í fiskstofna í heiminum hefur aukist hröðum skrefum, en ofveiði og mengun ógna mjög víða þessari mikilvægu uppsprettu eggjahvítuefna fyrir mannkyn. Svo lengi sem íslenska þjóðin byggir afkomu sína á hafinu, mun því Landhelgisgæslan axla mikla ábyrgð af því að verja þessa auðlind fyrir ásókn annarra þjóða.““

Síðan stendur þarna aðeins neðar, með leyfi forseta:

„„Kanna þarf möguleika á hagnýtri þátttöku Íslands í norrænum friðargæslu- og björgunaræfingum með aðild Eystrasaltsríkjanna, en slíkar æfingar eiga sér nú stað undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Sérstaklega þyrfti að athuga hvort til greina kæmi að varðskip Landhelgisgæslunnar, eitt eða fleiri, tækju reglulega þátt í slíkum æfingum.“ Þá segir, þegar rætt er um tundurduflaslæðingar: „Brýnt er að Landhelgisgæslan hafi yfir að ráða mannskap og tækjum til að fást við tundurduflaslæðingar, vegna þess hve Íslendingar eru háðir samgöngum á sjó. Með tilkomu nýs varðskips Landhelgisgæslunnar skapast auknir möguleikar á því að útbúa skip og þjálfa áhafnir með þeim hætti að gagn sé að, komi til þess að tundurduflum verði komið fyrir í íslenskri efnahagslögsögu.““

Þetta stendur í greinargerð frumvarpsins og er vitnað þarna í skýrslu þessarar nefndar m.a. Vegna þessara orða langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann taki undir orð þessarar nefndar frá 1993 um að íslenskir aðilar taki að sér þá þætti í störfum varnarliðsins, sem ekki krefjast annarra skuldbindinga en samræmast borgaralegum störfum. Þetta tengist því sem ég kom inn á áðan. Sér hæstv. dómsmálaráðherra Landhelgisgæsluna fyrir sér vera að sinna hernaðarlegum störfum, koma í staðinn fyrir eitthvað sem Bandaríkjaherinn hefur verið að gera hingað til? Þetta tengist því sem ég nefndi áðan.

Í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er talað um ólögbundin verkefni. Hæstv. dómsmálaráðherra kom aðeins inn á það í andsvari áðan. Hér er ein stutt spurning sem tengist að sjálfsögðu hinu: Er gert ráð fyrir einhvers konar hernaðarlegu samstarfi í þessu tilliti? Gætu þessi ólögbundnu verkefni tengst með einhverjum hætti hernaðarlegri starfsemi umfram það sem stendur í greinargerðinni sem hæstv. dómsmálaráðherra las upp áðan? Þetta geri ég ráð fyrir að sé ekki tæmandi talning enda er kannski erfitt að gera það.

8. gr. frumvarpsins er um heimildir Gæslunnar til vopnaburðar. Stutt spurning: Er verið að auka heimildirnar? Eru þetta ekki bara sambærilegar heimildir og lögreglumenn hafa?

Síðan langaði mig að spyrja um hlutafélagavæðingu hluta rekstursins í 25. gr. frumvarpsins. Þetta er nýmæli eins og komið hefur fram og mig langaði að athuga hvort hæstv. dómsmálaráðherra hafi dýpri rök fyrir opnun á því að stofna hlutafélag um flugreksturinn, skipareksturinn eða tækniþjónustuna. Þarna er vísað í sveigjanleika og aukið svigrúm, hagkvæmni og hagræðingu í rekstri. Nú er auðvitað um að ræða starfsemi sem er kannski ekki í hefðbundnum samkeppnisrekstri. Liggur eitthvað þarna annað að baki en stendur í greinargerðinni? Verður hugsanlega hluti af rekstrinum t.d. færður út úr stofnuninni? Það barst í tal í andsvari áðan hjá hæstv. dómsmálaráðherra varðandi einkavæðingu. Stendur eitthvað til að einkavæða hluta af þessum rekstri? Er það næsta skref eftir að opnað er á þetta rekstrarform? Er ráðherrann til dæmis tilbúinn að útiloka að þetta verði einkavætt? Önnur spurning þessu tengd: Hvernig verður háttað með réttindi starfsmanna viðkomandi hlutafélags, þ.e. þeirra starfsmanna sem heyra undir þann rekstur sem yrði hlutafélagavæddur? Munu réttindi þeirra breytast einhvern veginn?

Að lokum koma nokkrar minni háttar spurningar. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort til standi að flytja Landhelgisgæsluna í heild sinni eða að hluta í Reykjanesbæ. Þá er sömuleiðis talað aðeins um kostnaðinn, en samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofunnar á frumvarpið ekkert að kosta. Er hæstv. dómsmálaráðherra bjartsýnn á að það takist í ljósi þess að hugsanlega verði að bæta nýjum verkum eða hlutverkum við eða er hann á því að þetta bæti kannski ekki neinu við starfsemi Landhelgisgæslunnar og muni þar af leiðandi ekki kosta meira?

Að lokum: Stendur til að fjölga í Landhelgisgæslunni á næstunni? Hvernig sér hæstv. dómsmálaráðherra fyrir sér fjölgun starfsmanna vegna hins nýja búnaðar, svo sem flugvélanna, þyrlna o.s.frv.? Hefur hann nokkrar upplýsingar um hvernig Landhelgisgæslan verður eftir til dæmis fimm ár varðandi starfsmannahald, staðsetningu, kostnað og annað slíkt?

Þessum örfáu spurningum langaði mig að koma að við 1. umr. Ég vona að hæstv. dómsmálaráðherra taki vel í að svara alla vega sem flestum þeirra.